145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hangir nefnilega svo margt á spýtunni þegar kemur að þessu frumvarpi. Mér finnst vera rætt um það af of mikilli léttúð. Það eru heilsufarsvandamál, eins og hv. þingmaður fór rækilega yfir í ræðu sinni, síðan eru samfélagsvandamál og skaðlega áhrif á börn, andlega heilsu þeirra, af neyslu foreldra þeirra og heimilismeðlima.

Hv. þingmaður talaði um mikilvægi þess að frumvarpið fengi þinglega meðferð og benti á að stjórnvöld gætu athugað hug almennings hvað þetta varðar. Mín tilfinning er sú að almenningur kalli ekki eftir þessari breytingu. Ég held að almenningur sé yfir höfuð þokkalega ánægður með aðgengi að áfengi. Við vitum hver vandamálin eru og allar rannsóknir skjóta stoðum undir það að vandamálin munu aukast verði frumvarpið að lögum.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því hv. þingmaður nefndi leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðslur, hvort hún telji ekki nægilega vísbendingu þær kannanir sem gerðar hafa verið undanfarið og sýna að almenningur kallar ekki á þessa breytingu um vilja almennings.