145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta síðasta er ég alveg sammála hv. þingmanni um; komið er inn á þetta í bréfinu rá lækninum. Þetta er þáttur sem menn horfa kannski fram hjá. Auðvitað er erfitt að mæla hann. Þetta er orðið inni á því huglæga sviði sem er pínulítið snúið að takast á við með rannsóknum og öðru slíku. En viðhorfin í þessum efnum hafa sannarlega áhrif.

Eitt af því sem leiddi þann sem hér stendur til að greiða atkvæði gegn því að leyfa áfengan bjór var það að í mínum huga var engin leið að horfa fram hjá því að það mundi hafa áhrif á viðhorfið, það mundi upp að vissu marki normalísera áfengisneyslu. Rökin fyrir því voru einmitt þau að þetta væri svo veik tegund áfengis, væri tiltölulega skaðlítil og skipti því litlu. Ýmsir urðu til þess að benda á að þetta væri áfengi á því formi sem menn mundu kannski umgangast öðruvísi en sterka drykki, hafa í ísskápnum o.s.frv., og það hefði áhrif á viðhorf barna og ungmenna, og allt held ég að það hafi nú gengið eftir. Síðan leitar það einhvers jafnvægis.

Menn segja að þetta hafi bætt áfengismenninguna. Já, að einhverju leyti, að því marki sem neyslan á þessu áfengi varð ekki hrein viðbót við það sem fyrir var, sem hún varð auðvitað ekki að öllu leyti, en að hluta til þó. Jafnvel þó við værum sammála um það, og það var ég á sínum tíma og vissi að fyrr eða síðar kæmi áfengur bjór, þá skipti máli hvernig það væri innleitt.

Það skiptir líka miklu máli að hafa tæki í höndum eins og ÁTVR er að mínu mati. Ég spyr hv. þingmann til dæmis út í það lúmska í þessum efnum, eins og tilraunum áfengisframleiðenda og áfengissala til að merkja vöru, útbúa hana, setja hana á þannig form að það höfði sérstaklega til ungra neytenda. ÁTVR hefur staðið í lappirnar gegn því, reynt að komast undan því og varist því af hörku að þurfa að taka í sölu í búðum sínum áfengt gel eða hvað það nú er sem mönnum dettur í hug að framleiða, áfengar (Forseti hringir.) eftirlíkingar af ávaxtasöfum eða gosdrykkjum og annað í þeim dúr. Við þurfum að hafa allt þetta meira í þessari umræðu.