145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar líka að vita það. Nú er til dæmis verið að lögleiða kannabis víða um heim. Hvernig þætti þeim sem leggja frumvarpið fram að það væri sérstök deild í matvöruverslun þar sem menn gætu keypt ólíkar tegundir af marijúana, í geli og kökum og pípum og í lausu og allt þetta? Þetta er ekki neitt öðruvísi nema að einhverju leyti er það þannig að þeir sem reykja gras beita ekki eins miklu ofbeldi og þeir sem drekka áfengi, ef maður lítur á tölfræðina.

Mér finnst þetta mál vera þess eðlis að verið sé að hygla hagsmunum stórra aðila. Í þessu máli er ekki verið að huga að heildarhagsmunum þjóðarinnar, það er bara þannig. Þjóðin er ekki að kalla eftir þessu. Við þurfum hreinlega að rannsaka þessa hluti betur. Við þurfum að fara dýpra í að rannsaka neikvæð áhrif af drykkju inni á heimilum til dæmis. Það hafa komið rannsóknir sem eru mjög alvarlegar. Við erum ekki að tala um mat, við erum að tala um fíkniefni, vanabindandi fíkniefni fyrir marga sem þjást af sjúkdómi sem er kallaður alkóhólismi. Mér finnst að við þurfum að taka þetta mál af mikilli alvöru. Ég skora á frummælanda málsins að gera það með virkilega opnum hug. Því að ég er sannfærð um að sá ágæti hv. þingmaður hafi séð ýmislegt í sínum störfum sem líði honum ekki úr minni.