145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér hafa að mörgu leyti verið áhugaverðar umræður um þetta mál í dag en þær mættu að mínu mati verða miklu meiri og sérstaklega hefði ég áhuga á því að heyra fleiri stuðningsmenn eða flutningsmenn þessa máls gera tilraun til að rökstyðja ágæti þess efnislega. Enn betra væri auðvitað ef við sæjum flutningsmenn taka málefnalega á til dæmis gagnrýnum sjónarmiðum eins og þeim sem gerð var grein fyrir áðan í ræðu og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir las upp bréf frá Svani Sigurbjörnssyni lækni og sérfræðingi í lyflækningum og klínískri eiturefnafræði. Ég verð að segja alveg eins og er að ég vildi gjarnan heyra einhverja aðstandendur þessa máls fara yfir þetta lið fyrir lið og reyna að svara. Er það virkilega ekki þannig að við verðum að gera eitthvað með það, sem margir hafa nú orðið til þess að nefna á undan mér, þegar við stöndum frammi fyrir máli af þessu tagi með gríðarlega samfélagslega vandasama vinkla, félagslega og mannlega, og við fáum til okkar ákall og eindregna afstöðu eiginlega allra fagstétta sem málinu tengjast? Yfir línuna er það þannig að félagsfræðingar, heilbrigðisstarfsfólk, þeir sem eru í félagsstarfi í þróttastarfi, forvarnastarfi og öðru slíku, skora á Alþingi að gera þetta ekki og færa fram mjög sterk rök. Sérfræðistofnanir okkar sem hafa lögum samkvæmt það hlutverk meðal annars að gefa okkur ráð, veita okkur ráðgjöf á þessu sviði, móta stefnu, annast um hluti eins og lýðheilsu og heilbrigði, við vitum hvar þær standa o.s.frv.

Það hefur verið tilhneigingin til að reyna að skipta þessu svolítið upp í tvær andstæður. Ég ætla engum að gera upp skoðanir í þeim efnum, en oft vill það nú vera að það sé reynt að afgreiða það að mæla varnaðarorð í þessu sambandi sem einhvers konar gamaldags afstöðu. En þá spyr ég á móti: Hvað er svona nýmóðins við það að ýta röksemdum lýðheilsu og heilbrigðis til hliðar? Hvað er svona nýmóðins við það að láta ekki hafa of mikil áhrif á sig allt það böl sem fylgir ofneyslu áfengis? Er það nýmóðins? Ég hefði haldið að þetta væri akkúrat öfugt. Ég hélt almennt að lýðheilsusjónarmið og skilningur á mikilvægi heilbrigðs lífernis og heilbrigðs fjölskyldulífs væri einmitt nýmóðins og okkur hefði miðað eitthvað áfram veginn í þeim efnum að gera þeim sjónarmiðum hærra undir höfði en ekki lægra. Ég stend hér alla vega mjög stoltur yfir sannfæringu minni í þessu máli og tel það vera fullkomlega nýmóðins viðhorf og ætla engan að biðja afsökunar á því. Ég hrekk skammt undan þótt reynt sé að gera eitthvað annað og setja einhverja gamaldags klisju eða merkimiða á þá afstöðu.

Ég vil aðeins nefna að hér voru nefnd sem rök, að vísu af hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sem kannski er farinn, af hverju við gætum ekki tekið okkur til fyrirmyndar það fyrirkomulag sem er í lyfsölu, það gæfist ágætlega, ríkið þyrfti ekkert að versla með lyf. En er það góður samanburður að taka áfengi og meðhöndla það eins og hverja aðra vöru og setja það út í hvaða almennar verslanir í landinu? Við gerum það ekki með lyfin. Aldeilis ekki. Það finnst mér vera stóri misskilningurinn. Lyfin eru háð ströngu eftirliti. Þú þarft sérstakt lyfsöluleyfi og það er fagfólk með sérþekkingu á málaflokknum sem ber ábyrgð á því að allt sé samkvæmt lögum og reglum, enda er það alvörumál að ávísa og afgreiða lyf. Til þess þarf lækna með lækningaleyfi, til að gefa út lyfseðilsskyld lyf, og fagfólk til að afgreiða þau. Við erum ekkert að tala um það hér. Frumvarpið gengur ekki út á það. Ég tel þann samanburð algjörlega úti á túni.

Síðan hefði ég til dæmis viljað að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra hefðu komið hérna og rætt við okkur um það sem fram undan er til að mynda í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Við vitum öll að sá málaflokkur er mjög lestaður. Við vitum að kostnaður mun aukast á komandi árum. Og við vitum að aukin áfengisneysla er óhemjulega dýr og bætist þá við sem viðbótarkrefjandi viðfangsefni, fyrir þegar mjög lestað heilbrigðiskerfi. Ég leyfi mér að spyrja: Höfum við ekki eitthvað annað sem er nærtækara okkur en að taka áhættuna af því að með misráðnum breytingum af þessu tagi þyngjum við enn róðurinn hvað varðar það að takast á við lýðheilsu og heilbrigðisvandamál komandi ára og áratuga? (Forseti hringir.) Mér finnst ekki hægt að slíta það úr samhengi við stöðu þeirra mála almennt. Þetta er það sem leiddar eru mjög sterkar líkur (Forseti hringir.) að að muni gerast; aukin neysla, aukin vandamál, aukinn kostnaður. Og verða þá ekki menn að svara því hvernig þeir ætla (Forseti hringir.) að takast á við það?