145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég staldra við ýmsar fullyrðingar og ýmsa svona frasa í greinargerð frumvarpsins og þetta er ein setningin. Það er bara almælt, sannindi sem ekki þarf að tala um, að það sé almennt viðhorf að ríkið eigi ekki að standa í verslunarrekstri. Þar með þarf ekkert að hafa fyrir því að rökstyðja það frekar, það er bara almennt viðhorf. Já, já, út af fyrir sig eru ekki margir talsmenn þess, held ég, sérstaklega að ríkið standi fyrir almennum verslunarrekstri. Mér finnst ekkert að því heldur ef því væri að skipta. Til dæmis gæti það vel verið býsna góð lausn í vandamálum verslunar á landsbyggðinni að ríkið kæmi einfaldlega að því að tryggja verslun í fjölmörgum byggðarlögum þar sem hún á mjög undir högg að sækja. Hvers vegna ættu íbúarnir að þurfa að standa í samskotum í miklum erfiðleikum, jafnvel í byggðarlögum í miklum vanda, til að tryggja það eitt að þeir hafi verslun? Það mætti vel hugsa sér að gera það á félagslegum grunni eða með þátttöku ríkisins. En ég er ekki hugsjónamaður í þeim efnum að ég telji að ríkið eigi almennt að fara inn í verslunarrekstur.

Ég ætla þó heldur ekki að skrifa sofandi upp á þá nálgun sem mér finnst liggja hér dálítið nálægt að hlutverk ríkisins í samfélaginu eigi ekki að vera neitt annað en það sem enginn annar vill sinna. Það er auðvitað draumaland, draumaframtíð fyrirheitna land kapítalismans, að einkaaðilar fái að annast allt sem hægt er að gera sér að féþúfu, en ríkið sitji eftir með hitt, eins lítið ríki og mögulegt er. Þá vilja menn auðvitað færa út landamærin, fara inn í rekstur velferðarþjónustunnar og jafnvel inn í viðkvæm svið eins og þessi sem menn hafa einfaldlega gengið frá tilteknu skipulagi um á allt öðrum forsendum en þeim að þetta snúist um hvort ríkið eða einkaaðilar eigi að vera með verslun sem slíka.

Þetta er heilbrigðisstefna. Þetta er lýðheilsustefna. Ástæðan fyrir því að ég vil verja núverandi fyrirkomulag er að það er langtraustasta umgjörðin (Forseti hringir.) um það að mínu mati að framfylgja hinni aðhaldssömu áfengisstefnu og það eina sem við virkilega getum treyst á af því við höfum það í okkar höndum (Forseti hringir.) og það er víglína sem mun falla með því að fara með þetta út í verslanirnar og þá missum við tökin á (Forseti hringir.) þróun sem getur síðan áfram gengið miklu, miklu lengra. Takmarkanirnar tínast út ein af annarri o.s.frv.