145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og er hjartanlega sammála honum.

Það er ekki þannig að ríkið eigi að sinna því sem aðrir vilja ekki gera. Ríkið hefur mikilvægu hlutverki að gegna í því meðal annars að vernda hagsmuni almennings. Einokun á áfengissölu á sér langa sögu á Íslandi sem og annars staðar á Norðurlöndunum. Óvíst er hvaða fyrirkomulag væri í dag en ég held að ef áfengið væri að koma til í dag þá væri þetta hugbreytandi efni varla löglegt, að minnsta kosti ekki miðað við núgildandi fíkniefnastefnu í landinu. En það er auðvitað verið að vernda heilbrigði og vernda börn. Það eru ýmsir þættir sem einokunin hefur áhrif á með hindruðu aðgengi. Ég spyr þingmanninn: Hvaða afleiðingar hefði það fyrir samfélagið að heimila þetta, ekki bara (Forseti hringir.) samfélagslegu afleiðingarnar, heldur hvaða fjárhagslegu hagsmunir eru í húfi?