145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Já, frú forseti, ég er sammála. Það er mjög nærtækt að nálgast umræðu um hlutverk ríkisins í þessum efnum á þann hátt sem hv. þingmaður gerði, ég get tekið undir það. Ríkið hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna að stuðla að jákvæðum þáttum í samfélaginu og mannlífi sem við erum sammála um að við viljum, eins og heilbrigði og hollum lifnaðarháttum, eins og almennri hamingju eftir því sem við getum borið vonir til að með réttum hvötum og réttum stuðningi, réttri umgjörð um hlutina hjá okkur í samfélaginu, þá líði fólki almennt vel og sé hamingjusamt. Líta sérstaklega eftir hópum, t.d. börnum, sem eru berskjaldaðir fyrir hættum. Og erum við ekki að gera það úti um allt? Erum við ekki að reyna það með alls konar aðgerðum, löggjöf og reglum? Ég lít á þetta algerlega í sömu andrá, að við séum meðal annars að hugsa um börn, fjölskyldurnar.

Varðandi áhrifin á tekjur er auðvitað augljóst mál að því marki sem við erum (Forseti hringir.) sammála um að leyfa sölu þessarar vöru líka sammála um að hún eigi að vera dýr, það eigi ekki að vera ódýrt að ná sér í þennan vímugjafa. Þá er einfaldast (Forseti hringir.) að reyna að dreifa honum með skilvirkum hætti af einum aðila og tryggja að allar tekjurnar eða sem allra mest af þeim endi þá í vasa ríkisins sem situr uppi með kostnaðinn af vandamálunum.