145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður ræðir þetta af yfirvegun og skilningi og þar á meðal út frá því að við verðum að ræða um áfengisvandamálin í ljósi þess að við vitum að þau valda líka gríðarlegu óefnislegu tjóni, þótt við séum kannski hér að horfa sérstaklega á það sem menn vita um hið beina tjón sem ríkið situr uppi með.

Áhugaverð spurning, er það siðlegt að ríkið hagnist á því að selja vímuefni? Fyrir það fyrsta er áfengi vímuefni sem hefur lengi verið löglegt, það er náttúrlega ákveðinn grundvallarmunur á. Menn hafa ákveðið að leyfa sölu þessa efnis en með miklum takmörkunum og hluti af þeim takmörkunum hefur verið að ríkið annaðist um söluna. Við getum líka bætt við spurningunni: Er það siðlegt eða væri það ekki enn þá ósiðlegra að einkaaðilar högnuðust á því að selja vímuefni? Er þá ekki af tvennu illu skárra að það sé ríkið sem er þó svona nærri (Forseti hringir.) málinu og situr uppi með vandamálið? Ég held að niðurstaðan af þeirri spurningu hljóti að verða í fyrsta lagi sú að úr því að áfengi er löglegt á annað borð (Forseti hringir.) og úr því að einhver þarf að annast um söluna á því þá sé skást að ríkið geri það sjálft og taki til sín (Forseti hringir.) ávinninginn af því eftir því sem hann er einhver og noti hann í að mæta afleiðingunum.