145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp í mína aðra ræðu í þessu máli því að ég er, eins og fram kom í fyrri ræðu, mjög mikið á móti því að þetta frumvarp verði að lögum. Ég er fylgjandi því að Ísland reki áfram skaðaminnkandi stefnu í áfengismálum. Það er fullkomlega ljóst að leiðirnar til þess að draga úr skaða áfengis fyrir samfélög eru að takmarka aðgengi og í gegnum verðlagningu. Við höfum notað báðar þessar leiðir á Íslandi með góðum árangri.

Þegar talað er um að Íslendingar drekki mikið þó að við séum með einkasölu ríkisins á áfengi þá er það bara ekki rétt. Í nýlegri skýrslu OECD um áfengisstefnu OECD-ríkjanna og vandann sem ríki glíma við tengdan áfengisneyslu kemur í ljós að Ísland er í 33. sæti yfir áfengisneyslu á mann, langt fyrir neðan meðaltal OECD. Auðvitað kemur það til af þeirri stefnu sem við rekum hér hvað þetta varðar.

Ég skil ekki af hverju við viljum gera breytingar sem er vitað mál að munu hafa skaðleg áhrif á samfélagið og valda fjölþættum heilbrigðisvanda. Áfengi veldur mörgum tegundum krabbameina frá munnholi, niður meltingarveginn og niður í endaþarm og hefur ýmis önnur áhrif á fólk þó að það fái ekki krabbamein. Það býr við ýmsan heilsubrest tengdan lifur og nýrum og slíku. Mikil áfengisneysla foreldra og forráðamanna hefur mjög neikvæð áhrif á börn og svo mætti lengi telja um skaðleg áhrif áfengis.

Svo er það auðvitað þannig að áfengi er ekkert alltaf skaðlegt. Flest okkar hafa ánægju af áfengisdrykkju. Það er kannski líka þess vegna sem við eigum erfiðara með að viðurkenna vandann sem fylgir áfengisdrykkju. Það eru allir sammála um að tóbak er hættulegt og slæmt. Það er enginn þolinmæði með því að fólk taki upp sígarettu í boðum og öðru, en þegar kemur að áfengi þá höfum við miklu hærri þröskuld, miklu meiri „tolerans“, svo ég sletti, með áfengisdrykkju. Vitund okkar um að það beri að sýna tillitssemi og reyna að draga úr henni hefur að vísu aukist og við höfum staðið vörð um áfengisstefnu okkar.

Fjöldi Íslendinga hefur leitað sér aðstoðar vegna áfengissýki, alkóhólisma, og endurheimt líf sitt eftir að hafa lent í miklum ógöngum út af áfengisneyslu sem hafa haft fjölþætt áhrif á fjölskyldulíf, börn, atvinnu o.fl. Þúsundir Íslendinga hafa losnað út úr viðjum þess sjúkdóms sem áfengissýki er. Það er líka virðing við það fólk að það geti bara farið áfram í matvörubúðina án þess að þurfa að horfa á áfengi sem eykur líkurnar á að það falli í freistni. Það er eðlilegt í samfélagi að við tökum tillit hvert til annars. Það er ekki mikil fórn sem við færum að þurfa að gera okkur smáaukaferð til þess að kaupa rauðvínsflösku eða vodkaflösku, en það skiptir rosalegu máli fyrir umtalsverðan hóp fólks að vínið sé ekki í matvörubúðum.

Frú forseti. Ég mun standa vörð um einokun ríkisins á áfengissölu og vona að þetta frumvarp verði aldrei að lögum.