145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala Landsbankans á Borgun.

[10:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við vissum það eftir umfjöllun á opinberum vettvangi á síðasta ári, um sölu Landsbankans á Borgun, að það fyrirtæki hafði verið selt til útvalinna kaupenda sem voru sérvaldir af Landsbankanum og fengu einir að bjóða í Borgunarhlutinn. Salan fór fram í leyni og án nokkurrar samkeppni um verð og verðið var hlálegt miðað við virði fyrirtækisins og arðgreiðslur úr því.

Það sem síðan hefur komið í ljós, þetta vissum við allt fyrir, er að Landsbankinn hefur gert alvarleg mistök við verðmat á fyrirtækinu og samningsgerðina, hefur ekki tryggt sér aðgang að þeim gríðarlegu greiðslum sem fyrirtækið mun nú að óbreyttu fá, eins og hann þó gerði við söluna á Valitorhlutnum á svipuðum tíma. Bankinn virðist líka hafa gróflega vanmetið það viðskiptatækifæri sem í fyrirtækinu Borgun fólst, ef hægt er að nýta það á einu ári til að afla gríðarlegra verðmæta umfram það sem söluverð á 20% hlut hljóðar upp á.

Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við og endurreisa traust á Landsbankanum eftir þessa hörmungarsögu alla saman? Styður hann hugmyndir okkar um rannsókn á sölunni, fyrirkomulagi hennar og tildrögum? Mun hann standa með okkur að því að knýja fram slíka rannsókn til að allt fáist upp á borð varðandi þessi viðskipti og þá sé hægt að draga af því lærdóm þegar við höldum áfram með fyrirsjáanlega sölu ríkiseigna á næstu missirum?