145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala Landsbankans á Borgun.

[10:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Landsbankinn er með sjálfstæða stjórn og í þá stjórn er skipað eftir lögum, Bankasýslan fer síðan með hlutabréfið, eins konar armslengdarsjónarmið ráða för um skipan stjórnarinnar, þannig að málefni Landsbankans eru í sjálfu sér ekki á nokkurn einasta hátt, nema bara með almennum hætti eins og á við um önnur fjármálafyrirtæki, inni á borðum fjármálaráðherra. Það getur þess vegna ekki verið hlutverk fjármálaráðherrans að bera ábyrgð á trausti Landsbankans. Það er stjórnenda og stjórnar bankans og eftir atvikum Bankasýslunnar sem fer með þessi mál að fjalla um þau og bera á þeim ábyrgð. Ég ætla ekki að fara í umræðu hér um það hvernig var staðið að sölunni, enda hef ég ekki neina forsendu til þess, en mér skilst að stjórnendur Landsbankans hafi áður komið fyrir þingnefnd hér og gert grein fyrir málinu. Ég tek eftir því að Landsbankinn hefur sömuleiðis í tvígang í gær birt skýringar á heimasíðu sinni og undirstrikar með því að hann beri sjálfur ábyrgð á því að viðhalda trausti gagnvart bankanum. Það er margt þegar komið fram um þessi viðskipti, m.a. það að virðisaukinn í Borgun virðist hafa orðið til að verulegu leyti til eftir sölu Landsbankans á sínum hlut í Borgun, þ.e. vegna þess að eftir að salan átti sér stað ákvað félagið að fara í útrás á erlenda markaði sem er stór hluti þeirrar skýringar sem er að baki auknu virði hlutabréfanna eða eignarhlutarins, hlutdeildarinnar, í Visa Europe.

Að öðru leyti hef ég í sjálfu sér engar forsendur til þess að fara inn í þetta mál. En ég styð að sjálfsögðu ef menn vilja skoða með einhverjum hætti (Forseti hringir.) hvernig þessi mál hafa gengið fram í ríkisfyrirtæki. Þá verða menn að fara eftir réttum boðleiðum, óska eftir því við Bankasýsluna eða eftir atvikum stjórn bankans. Ég er ekki (Forseti hringir.) í nokkrum einasta vafa um það að stjórn bankans eða stjórnendur eru reiðubúnir að koma fyrir þingnefndina, eins og þeir hafa áður gert, og gera grein (Forseti hringir.) fyrir þessum hlutum.