145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

frumvörp um húsnæðismál.

[10:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Frá árinu 2010 hefur verið í gangi stefnumótun í húsnæðismálum og niðurstaðan hefur alltaf verið sú sama, að efla leigumarkaðinn með uppbyggingu leigufélaga og auka stuðning við leigjendur. Það hefur verið pólitísk samstaða um þetta, ekki bara hjá hinum pólitísku flokkum, heldur líka hjá aðilum vinnumarkaðarins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Mér vitanlega hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki hreyft mótmælum við þessari stefnu.

Nú loksins eru húsnæðismálin komin til umfjöllunar í velferðarnefnd. Það gekk ekki þrautalaust fyrir félags- og húsnæðismálaráðherra að koma málunum til þings. Sögusagnir heyrast um að andstaða sé við málin innan Sjálfstæðisflokksins. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra nokkurra spurninga:

Ég vil spyrja hvort Sjálfstæðisflokkurinn standi ekki heils hugar að baki frumvörpum félags- og húsnæðismálaráðherra.

Ég vil spyrja hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi stutt málin í ríkisstjórn.

Ég vil spyrja hvort þau hafi verið afgreidd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins án fyrirvara.

Ég vil spyrja hvort gagnrýni ritara Sjálfstæðisflokksins á frumvörpin endurspegli afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þeirra.