145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

frumvörp um húsnæðismál.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja við þessari ræðu. (Gripið fram í: Svara.) Þetta var samfelld runa af fullyrðingum og síðan fylgdu spurningar sem leiða af fullyrðingunum. Ef ég bara byrja á fullyrðingunum þá voru þær meira eða minna allar rangar — að maður komi hingað upp í andsvar þegar lagt er upp með það (Gripið fram í.) að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki hreyft mótmælum við því að það þurfi að gera eitthvað í málefnum húsnæðismarkaðarins á Íslandi. Hvurs konar upplegg er þetta hjá hv. þingmanni? Það er alveg með ólíkindum að leggja málið þannig upp að hér hafi ekki verið hreyft mótmælum við því að grípa þurfi til einhverra aðgerða á húsnæðismarkaði. (Gripið fram í.)

Það sem við höfum verið að gera í þessari ríkisstjórn eru markvissari, umfangsmeiri og jafnframt árangursríkari aðgerðir en við höfum séð í langa hríð. Þær tengjast ekki síst lánamálunum. Okkur hefur tekist á örskömmum tíma að stórlækka skuldabyrði heimilanna sem er einhver stærsta húsnæðisaðgerð sem hefur verið ráðist í á Íslandi.

Varðandi frumvörpin sem eru komin á þing þá ætti maður ekki að þurfa að standa hér og svara því hvort málin njóti stuðnings í ríkisstjórn og þingflokkum, mál sem eru komin í nefndina þar sem hv. þingmaður situr. Hvurs konar fyrirspurn er þetta? Að maður þurfi að svara svona löguðu. (Gripið fram í.) Það liggur í hlutarins eðli, þingmenn sem kalla hér fram í, að mál sem stafa frá ríkisstjórn og eru komin í gegnum þingflokka njóta stuðnings. Þau þurfa líka að fá efnislega meðferð í þinginu. Við þurfum að spyrja okkur spurninga, t.d. í tilefni af ábendingum sem koma fram undir þinglegri meðferð, eða er það ekki svo, hv. þingmaður, að menn eigi að hlusta eftir ábendingum undir þinglegri meðferð eða er þetta allt saman fyrir fram ákveðið í hennar huga?