145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

frumvörp um húsnæðismál.

[11:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta var aldeilis. Ég spurði nokkurra spurninga og gat ekki fengið skýr svör við þeim. Að sjálfsögðu fara þingmál í efnislega meðferð og tekið er tillit til góðra ábendinga. En það er mikilvægt fyrir okkur sem sitjum og erum að vinna málin að vita hvort ríkisstjórnin ætli sér ekki að afgreiða þau í raun og veru.

Hæstv. fjármálaráðherra gat svona skotið því inn í aukasetningu að jú, jú, Sjálfstæðisflokkurinn styddi þetta, en hann gat ekki svarað beinum spurningum um stuðning hans við frumvarpið og fyrirvaralausa samþykkt á því í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Á sama tíma hafa húsaleigubætur ekki hækkað í þrjú ár. Könnun meðal lægst launuðu félagsmanna ASÍ sýnir að þeir greiða um 40–70% af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu. Aðgerðir hæstv. fjármálaráðherra hafa snúið að þeim sem (Forseti hringir.) nú þegar eiga húsnæði á meðan leigjendur (Forseti hringir.) hafa legið óbættir hjá garði. Ég trúi því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) ætli að skilja það fólk eftir.