145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að flytja mig ekki hreppaflutningum.

Það er vandasamt að selja banka. Við höfum af því reynslu, og bitra reynslu, frá síðustu einkavæðingu ríkisbanka að það er hætt við að önnur sjónarmið en hagsmunir almennings af eðlilegu verði og samkeppni um hið selda fái ráðið.

Það tókst gríðarlega illa til síðast og þá sátu þessir sömu flokkar í ríkisstjórn og þeir hafa ekki staðið að rannsókn á þeirri einkavæðingu sem þá fór fram. Ógagnsæi og flókin eignatengsl voru rótarmein að þeirri atburðarás sem síðar leiddi til fjármála- og gengishrunsins 2008.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru settar leikreglur við sölu eignarhluta ríkisins og Bankasýslu komið á fót og henni ætlað hlutverk við það verkefni. En það er engu að síður margt sem þarf að hafa í huga við þær aðstæður sem við búum við nú.

Fyrsta spurningin sem vert er að spyrja sig að er: Hvað hastar? Landið er í gjaldeyrishöftum. Það eru engar líkur á því að neinir fjárfestar á Íslandi hafi ráð á því að kaupa ríkisbanka fyrir eigin rammleik á grundvelli eigin efnahags. Því er sú hætta enn fyrir hendi að menn muni kaupa á annarlegum forsendum, menn muni borga yfirverð fyrir banka til þess að komast í þá aðstöðu að mjatla kaupverðið út úr almenningi, íslenskum fyrirtækjum og íslenskum almenningi, næstu áratugina á eftir í skjóli hafta og í skjóli þeirrar einangrunar sem íslensk króna veitir bankakerfinu.

Það er líka mjög mikilvægt að taka alvarlega athugasemdir Bankasýslunnar sem í nýlegri skýrslu segir að ekki sé ráðlegt að hefja sölu á eignarhlut í Landsbankanum fyrr en menn gera það upp við sig hvar ætlunin er að enda með Landsbankann. Ætlar ríkið til langframa að vera meirihlutaeigandi þar, minnihlutaeigandi eða selja sig alveg út úr bankanum? Þetta liggur ekki fyrir og satt að segja er himinn og haf á milli viðhorfa stjórnarflokkanna í þeim efnum og Framsóknarflokkurinn stendur fyrir auglýsingaherferð gegn sölu Landsbankans þessa dagana á samfélagsmiðlum.

Það er þannig að áður en hægt er að hefjast handa á sölu á hlut í Landsbankanum þarf að liggja fyrir hver stefnan er um framtíðareignarhald bankans.

Ég get sagt fyrir mig að það væri eðlilegt að sjá fyrir sér hlutdeild ríkisins í Landsbankanum til langframa. Hún þarf ekki endilega að vera meirihlutaeign en það þarf að vera þannig að ríkið hafi lykilstöðu þar andspænis dreifðu eignarhaldi. Það er líka mikilvægt að tryggja fjölbreytt eignarhald annarra banka á Íslandi. Helst þannig að lífeyrissjóðir komi að einum banka og að erlent eignarhald verði að þeim þriðja. Erlent eignarhald skiptir máli til að draga úr áhættunni í fjármálakerfinu vegna þess að þegar á bjátar í íslensku efnahagslífi og erfitt er að fjármagna banka þá er, ef hagsveiflan er sérstök, niðursveifla á Íslandi, stoð í því að hafa erlent eignarhald þar sem hinir erlendu eigendur geta þá fjármagnað sinn eigin banka og þar með dregið úr fjármögnunaráhættu í litlu bankakerfi með einangrandi gjaldmiðil.

Það er líka mikilvægt að fara yfir það núna hvort ekki sé tækifæri til að gera fleiri grundvallarbreytingar á fjármálakerfinu. Um allan heim er verið að fjalla um að fjármálakerfið eins og það er orðið núna sé farið að þjóna sjálfu sér, sjúgi verðmæti af verðmætaskapandi atvinnulífi og heimilum, búi til sífellt flóknari og flóknari afurðir til þess að tryggja stjórnendum og þeim sem starfa innan geirans gríðarlegar tekjur, bónusa og ávinning en almenningur sitji uppi með herkostnaðinn.

Ég vitnaði í nýlega bók eftir hinn fræga hagfræðing John Key, Other People's Money, sem fjallar einmitt um það hvernig fjármálakerfið byggist á því að sölsa undir sig annarra aðila fé. Við í Samfylkingunni munum fá John Key hingað til lands í vor.

Það er mikilvægt að við nýtum það tækifæri sem er núna, þegar eignarhaldið er vegna ýmissa atburða að færast á hendur ríkisins á nýjan leik, til þess að hugsa frá grunni hvernig fjármálakerfi við viljum hafa. Viljum við kannski ryðja braut í því að hafa fjármálakerfi sem þjónar fyrst og fremst fólki og verðmætaskapandi fyrirtækjum en ekki sjálfu sér? Viljum við snúa baki við þeirri öfugþróun sem hefur verið almennt á fjármálamörkuðum (Forseti hringir.) frá 1980? Tækifærið til þess er núna og þess vegna skiptir máli að taka yfirvegaða ákvörðun (Forseti hringir.) um stefnumörkunina núna á þessum tímapunkti áður en hafist er handa um sölu á hlut í ríkisbönkunum.