145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:20]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Í stöðuskýrslu Bankasýslunnar er komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hefja söluferli á allt að 28,2% hlut ríkisins í Landsbankanum. Sú niðurstaða kemur á óvart, ekki síst í ljósi þess að verðmat á hlutabréfum banka í Evrópuríkjum er enn mjög lágt miðað við sögulegt meðaltal, auk þess sem innlendir fjárfestar hafa ekki bolmagn til að kaupa hlutinn að mati Bankasýslunnar. Við þetta bætist sú staðreynd að Arion banki er í söluferli og markaðurinn er því mettur. Við aðstæðurnar sem nú ríkja er ekki heppilegt eða mögulegt að fá hæsta verð fyrir hlut ríkisins í Landsbankanum. Það fylgir því mikil ábyrgð að hefja sölu hlutarins við svo óhagfelldar aðstæður og tjón ríkissjóðs af flýtinum gæti numið tugum milljarða þegar upp er staðið.

Ríkið hefur uppskorið mikinn arð og eignaauka af Landsbankanum, samtals hátt í 200 milljarða. Til viðbótar mun vera hægt að greiða 63 milljarða úr bankanum á þessu ári í ríkissjóð. Þótt gert sé ráð fyrir hóflegri arði í framtíðinni mun hann samt áfram vera hærri en kostnaður ríkisins af því að eiga hlutinn áfram. Með því að eiga eignarhlutinn áfram munu allir landsmenn njóta góðs af þeim ávinningi sem rennur í ríkissjóð. Með því að selja hlutinn nú rennur ávinningurinn til þrengri hóps.

Bankasýslan telur að erlendir fjárfestar gætu haft áhuga á hlut í Landsbankanum. En hvernig getur það þjónað hagsmunum okkar að selja úr landi hlut í stærsta og arðbærasta fyrirtæki landsins og það á tombóluprís? Er ekki augljóst að arður og eignaauki mun þá um ókomin ár renna úr landi í erlendri mynt sem dregst frá gjaldeyrisforðanum? Ef stór hluti bankakerfisins endaði í eigu erlendra fjárfesta, eins og suma dreymir um, mundi það vera til þess fallið grafa undan lífskjörum í landinu til lengri tíma litið, enda gæti gjaldeyrisútstreymið numið hundruðum milljarða á aðeins einum áratug. Það hlýtur að vera skylda stjórnvalda að afstýra slíku slysi.

Virðulegi forseti. Þetta mál er viðameira en svo að hægt sé að reifa öll rök á tveimur mínútum en ég hvet alla þingmenn til að kynna sér þetta gríðarstóra hagsmunamál ofan í kjölinn. Niðurstaða mín er sú að við núverandi aðstæður sé ekki hægt að fá gott verð (Forseti hringir.) fyrir eignarhluti ríkissjóðs í bönkunum og hagsmunum ríkissjóðs (Forseti hringir.) sé því betur borgið með því að eiga eignarhlutinn áfram og njóta arðs af honum.