145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki margt sem hægt er að segja um þetta mál af mikilli dýpt á tveimur mínútum. Nú kvarta ég enn og aftur yfir því að tíminn í sérstökum umræðum á þinginu sé almennt of stuttur.

Þegar kemur að einkavæðingu bankanna, sérstaklega þessum hluta, er mér er óljóst nákvæmlega hvernig best sé að hafa það til framtíðar. Ég held að engin leið sé örugg. Ástæðan fyrir því er sú að ég tel íslenska hagkerfið mjög sérstakt í veigamiklum atriðum þannig að klassískar hagfræðikenningar, sem ég aðhyllist ellegar og mundi aðhyllast mun sterkar í stærra hagkerfi, ganga ekki upp á Íslandi upp að því marki sem þær mundu ganga upp í stærri samfélögum. Stór hluti af þessu atriði er einfaldlega fámennið á Íslandi. Annar gríðarlega stór hluti er íslenska krónan sem veldur einangrun á íslenskum fjármálamarkaði og í íslensku hagkerfi. Þess vegna þykir mér alltaf mikilvægt að við ræðum hluti eins og einkavæðingu bankanna í samhengi við einkenni Íslands, þ.e. íslensku krónuna og einangrunina sem er óhjákvæmileg að mínu mati, svo ég tali nú ekki um aðstæður ef við ljúkum þessari einangrun og opnum aftur eins og var fyrir hrun.

Ef okkur tækist að afnema til dæmis fjármagnshöft með öllu þá held ég að hætt væri við því að almenningur í landinu og fyrirtæki tækju sjálf upp á sitt einsdæmi upp aðra gjaldmiðla. Ég held að það væri mjög slæm þróun ef ákvörðunin yrði ekki tekin af yfirvöldum og með hliðsjón af því hverjar afleiðingar af slíku yrðu. Ég tel þetta allt skipta mjög miklu máli þegar kemur að bönkunum sér í lagi vegna þess að þeir eru drifkraftur peningakerfisins.

Hvort almennt sé gott samkvæmt klassískum hagfræðikenningum að ríkið eigi banka eða ekki — ég skil mætavel þau sjónarmið að ríkiseign hafi tilhneigingu til þess að bjóða upp á spillingu, en það eru aðrir þættir sem skipta líka máli í íslensku hagkerfi. Því miður hef ég ekki meiri tíma til að fara nánar út í það, en þakka fyrir þessa umræðu og hvet til þess að hún haldi áfram.