145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi gleymist oft í umræðunni að við greiðum gríðarlega háar fjárhæðir í vexti. Á síðasta ári var upphæðin hærri en sem nam öllum framlögum til Landspítalans og Sjúkratrygginga Íslands. Þær eru litlu lægri í dag.

Í öðru lagi. Evrópska bankakerfið er í fangi skattgreiðenda. Það er okkar vandamál. Við byggjum á evrópskum reglum og þar er innstæðutryggingakerfi sem gengur engan veginn upp. Sömuleiðis er það almenna reglan og sérstaklega á Íslandi að bankar eru allt of stórir sem þýðir að þeir eru gríðarlega kerfislega mikilvægir.

Í þriðja lagi. Allir bankar fóru á hausinn í alþjóðlega bankahruninu, svo sannarlega einkabankarnir, alveg sama hvernig þeir voru einkavæddir. Sparisjóðirnir fóru lóðrétt á hausinn og sérstaklega varð nú skellurinn eftir bankahrunið. Það þekkja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar mætavel. Ekki síst fór þar illa samfélagsbankinn, Íbúðalánasjóður, sem hefur kostað slíkar fjárhæðir að við hefðum getað nýtt þær til að byggja nýjan Landspítala. Við skulum hafa það alveg á hreinu að Íbúðalánasjóður hefur öll einkenni svokallaðs samfélagsbanka sem menn tala um svo digurbarkalega bæði í þingsölum og annars staðar.

Í fjórða lagi þá er það nú þannig, virðulegi forseti, að ríkisbankinn hefur verið gagnrýndur, og mér finnst það vera réttmæt gagnrýni, fyrir að selja ekki eignir í opnu söluferli. Það er ekki nýtt. Það er ekki fyrirtækið sem rætt er um núna, Borgun, á síðasta kjörtímabili voru það Húsasmiðjan, Plastprent, Icelandic Group, Skýrr, EJS, HugurAX og Vodafone sem voru seld með þeim hætti. Og þrátt fyrir það, virðulegi forseti, að menn tali nú digurbarkalega og hafi sett á fót sérstaka stofnun sem á að hafa eftirlit með þessu, sem heitir Bankasýsla ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég vona að menn átti sig á því að ef við ætlum að ná þeim árangri sem menn tala um og m.a. málshefjandi, þá þurfum við að ræða þessi mál í grundvallaratriðum. (Forseti hringir.) Það var margt í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem benti til þess (Forseti hringir.) og ég vonast til þess að umræðan verði með þeim hætti í nánustu framtíð.