145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hafði nokkuð ákveðnar skoðanir á þessu máli en svo þegar ég heyri öll sjónarmið þá er ég farin að sveiflast eins og lauf í vindi. Almennt finnst mér að ríkið eigi ekki að standa í bankarekstri og við eigum alveg nóg með Íbúðalánasjóð mundi ég halda. Hins vegar, eins og hefur verið sagt hérna og það þarf kannski ekki að þylja það upp, þá þarf auðvitað að vanda til verka og læra af sögunni. Ég held að fjölmiðlaathyglin vegna þeirrar einkavæðingar sem þá færi fram yrði slík að ef menn gætu ekki vandað til verka þá væri þeim hreinlega ekki viðbjargandi. Við höfum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þar finnst mér vera mjög góð úttekt á einkavæðingu bankanna upp úr aldamótum. Ég hef ekki alveg skilið af hverju við ættum að fara aftur í að rannsaka það, þetta er mjög góð úttekt sem ég býst við að allir lesi sem koma að þessum málum. Ég treysti fjármálaráðherra til að standa sig í stykkinu. Svo er það auðvitað okkar þingmanna, almennings og fjölmiðla að veita aðhald.

Mér finnst þetta ágæt skýrsla sem kom út hjá Bankasýslunni og ég veit ekki hvort ég er eitthvað barnaleg í þessu en mér finnst þetta ekki vera alveg eins rosalegt og menn tala um. Við erum ekki að tala um að selja allan Landsbankann. Þá finnst mér líka rétt að taka fram eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að það að ríkið eigi banka er engin trygging fyrir fagmennsku, samanber það sem var í gangi með þegar Landsbankinn var að selja hlutinn í Borgun. Ríkið á bankann, en hvað? Þetta gerist bara fyrir framan nefið á okkur og enginn getur gert neitt. Það er regluverkið og lagaramminn sem þarf að vera almennilegur.

Virðulegur forseti. ég hef ekki meira um þetta að segja á þessu stigi en ég þakka samt fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg.