145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa sérstöku umræðu um mögulega sölu bankanna og heimildir til hennar. Það er afar mikilvægt að við, fulltrúar allra flokka, fáum tækifæri til að ræða þetta mál hér með hæstv. fjármálaráðherra, ekki síst í ljósi þeirra heimilda sem eru og hafa reyndar verið um skeið. Þá er ég að vísa til heimildar í fjárlögum og fyrirætlana um sölu á tæplega 30% hlut í Landsbankanum, og ekkert síður í ljósi umræðunnar sem tengist því að hlutur Íslandsbanka færist til ríkisins.

Það er óhjákvæmilegt að horfa til lengri tíma og sjá fyrir sér skipulag fjármálakerfisins og peningamála og svo hlutverk bankanna í því samhengi. Bankasýslan sem hefur alveg skýrt hlutverk í sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefur nú þegar hafið undirbúning á söluferli og gefið út prýðisstöðuskýrslu um fyrirhugaða sölumeðferð. Þar koma fram fjölmargir þættir sem þarf að horfa til og hafa verið reifaðir í umræðunni, m.a. um eignarhald og regluverk. Þegar litið er til helstu sjónarmiða sem styðja sölu er í mínum huga grundvallarspurningin hvort ríkið eigi yfir höfuð að vera í þessari starfsemi. Slíkri starfsemi fylgir áhætta, ég sakna þess punkts í umræðunni. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir jafn háum arðgreiðslum og hingað til út í hið óendanlega og þá er skynsamlegt að endurheimta fjárfestingu til að greiða niður skuldir sem til var stofnað og ná þannig niður vaxtakostnaði. Það hlýtur að vera skynsamlegt til lengri tíma litið og þetta snýst um það núna hvort við fáum ásættanlegt verð fyrir þessa hluti en umfram allt að allt söluferlið (Forseti hringir.) verði opið og gagnsætt.