145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

afstaða stjórnarliða til sölu Landsbankans.

[11:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að þingmenn verði að nota það tækifæri sem gefst í þessum lið, um fundarstjórn forseta, til að ræða þetta mál áfram, eins og hér hefur verið gert.

Í þessari umræðu hefur komið fram að Framsóknarflokkurinn styður ekki áform um sölu á tæplega 30% hlut í Landsbankanum. Það kemur fram í ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Forsætisráðherra sagði hér fyrir nokkrum dögum að það lægi ekkert á að selja hlut í Landsbankanum. Bankasýsla ríkisins er komin á fulla ferð við að undirbúa söluna. Þetta er staða málsins.

Vegna síendurtekinna ummæla framsóknarmanna, um að þeir styðji ekki söluna, efast maður um að þingmeirihluti sé fyrir þessari sölu. Það er það sem er verið að brjóta hér til mergjar. Framsóknarflokkurinn er reyndar samur við sig. Hafa skal í huga að hann samþykkti fjárlög þar sem gert var ráð fyrir sölunni og gert ráð fyrir tekjum á þessu ári af sölunni. (Forseti hringir.)

Það sem liggur hér fyrir — sem er mjög erfitt verkefni, ég geri mér grein fyrir því — er að reyna að gera sér grein fyrir því hvort Framsóknarflokkurinn meinar eitthvað með því sem hér er verið að segja eða hvort þetta er bara áframhald á því að hafa fyrirvara og geta sagt: Það er hæstv. fjármálaráðherra sem er vondi maðurinn sem ætlar að selja.


Tengd mál