145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

afstaða stjórnarliða til sölu Landsbankans.

[11:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér þykir að jafnaði fínt að þingmenn séu ósammála, jafnvel þótt þeir tilheyri báðir ríkisstjórnarflokkum.

Ég vil enn og aftur gera athugasemd við tímalengd svona umræðna. Hér koma menn upp undir liðnum um fundarstjórn forseta og taka einhverja efnislega umræðu og það er gagnrýnt, alveg með réttu að mínu mati, en mér þykir það vera ákall um að þessar sérstöku umræður þurfi að vera lengri. Mér finnst okkur vanta einhvers konar leið til að halda svona umræðum áfram.

Oft verða sérstakar umræður sem varða ekki beinlínis þingmál til umræðu og þá er mjög erfitt að ræða svona mál til mergjar á þingi. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við gerum þetta.

Að því sögðu, ég ætla ekki út í neina efnislega umræðu um málið, finnst mér að til að laga svona hluti eigum við að breyta þingsköpum í þá átt að við getum meira rætt svona mál.