145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[12:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru nokkrar spurningar sem mig langar að beina til hæstv. utanríkisráðherra um þessa tillögu. Ég hefði sjálf talið heppilegra að við hefðum verið búin að afgreiða þessa þingsályktunartillögu áður en fjárheimild var veitt. Í ljósi þess að ríkisstjórnin samþykkti að taka þessa ákvörðun í vor spyr ég hæstv. utanríkisráðherra hvað hafi tafið málið hingað inn í þingið. Því var ekki útbýtt fyrr en í desember. Í greinargerð og í ræðu hæstv. ráðherra kemur fram að þróunarsamvinnunefnd OECD muni leggja mat á það hvort stofnframlag Íslands inn í þetta teljist framlag til þróunarsamvinnu. Ef svo yrði spyr ég hæstv. ráðherra: Mundi það þá bætast við framlög okkar til þróunarsamvinnu?

Af því að lesa stofnskjöl bankans sé ég ekki betur en að þetta sé mjög hefðbundin bankastarfsemi, a.m.k. að sumu leyti. Í markmiðunum er bara talað um fjárfestingu í innviðum, það er ekki sérstaklega tiltekið hvað. Það er rætt um sjálfbært hagkerfi en sjálfbærnin ekkert skilgreind í þeim efnum og ekkert minnst á það hvort fjárfestingar eigi að stuðla að því að berjast gegn loftslagsbreytingum svo dæmi sé tekið. Á einum stað er minnst á félagslega þróun.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um sýn hans á þetta. DAC-nefndin er ekki búin að úrskurða um þetta en horfir hæstv. ráðherra á þetta fyrst og fremst sem þróunarsamvinnu eða lítur hæstv. ráðherra fremur á þetta sem fjárfestingartækifæri? Rökstuðningurinn með tillögunni snýst fyrst og fremst um að þarna séu vaxandi hagkerfi, miklar fjárfestingar fram undan og það sé mikilvægt að vera hluti af þeim tækifærum. Mér finnst dálítið mikilvægt að við á Alþingi ræðum það hvort við erum að tala hér um framlag til þróunarsamvinnu eða hvort við lítum á þetta sem fjárfestingu (Forseti hringir.) í einhvers konar tækifærum í alþjóðlegum viðskiptum.