145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[12:18]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum samþykktir Innviðafjárfestingabanka Asíu. Eins og kunnugt er fékk fjármálaráðuneytið með fjáraukalögum fyrir árið 2015 heimild til að skuldbinda ríkissjóð um 2,3 milljarða vegna kaupa á hlut í Innviðafjárfestingabanka Asíu.

Í þingræðu um fjáraukalög mælti ég eindregið gegn þessari ráðstöfun, enda er ávinningur af henni mjög óviss, en auk fjárframlagsins krefjast samþykktir bankans þess að honum og starfsmönnum hans verði veitt sérstök fríðindi og undanþágur frá lögum og eftirliti.

Vandséð er að veita megi slíkar undanþágur án heimildar Alþingis og hún hefur ekki enn verið veitt. Ég mun færa rök gegn því að hún verði veitt.

Starfssvið þessa banka er að vera fjölþjóðlegur fjárfestingarbanki til að lána til uppbyggingar á innviðum í Asíu og Eyjaálfu eingöngu og höfuðstöðvar bankans verða í Kína. Hér hefur verið rætt hvort hugsanlega megi líta á þetta sem þróunaraðstoð, framlag okkar til bankans. Ég held að öllum hér sé ljóst að uppgangur í Asíu og velmegun er miklu meiri þar en í þeim ríkjum sem líða sáran skort og þar sem er mikil fátækt. Ég held að ef við viljum leggja meira til þróunaraðstoðar ættum við að beina henni þangað sem hennar er ríkari þörf. 2,3 milljarðar gætu komið sér gríðarlega vel fyrir sveltandi börn en munu engu máli skipta fyrir þessa innviði.

Við munum engu máli skipta í bankanum en samt munum við finna fyrir þessari heildarskuldbindingu í efnahag okkar. Þetta eru 2,3 milljarðar. Vissulega greiðist aðeins fimmtungur skuldbindingarinnar í peningum en það er hægt að kalla eftir afganginum hvenær sem er.

Hlutdeild Íslands í bankanum verður innan við 0,3% og Ísland mun hvorki fá fulltrúa í bankaráði né í framkvæmdastjórn bankans, hefur lítil sem engin áhrif á stefnu bankans og rennur blint í sjóðinn með það hvaða pólitík verður rekin af bankanum, sem verður að 26% stýrt af Kínverjum.

Ráðuneytið telur að þátttaka í bankanum muni efla góð samskipti Íslands og Asíuríkja. Ég tel að það séu margar aðrar leiðir beinni og færari til þess en að vera eigandi að agnarsmáum hluta í þessum banka. Hvað varðar að Ísland verði sýnilegra í Asíu held ég að það þurfi ansi stóran kíki til að sjá Ísland frá Asíu en ef hægt er að koma því í kring með þessari fjárfestingu er það mikið ævintýri. Að aðild Íslands gæti skapað aukin tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf í Asíu — binda menn vonir við það? Hvaða fyrirtæki hafa óskað eftir því að ríkissjóður leggi að veði 2,3 milljarða svo þeim gangi betur að selja lausnir sínar í útlöndum, í Asíu?

Mín reynsla er sú af útflutningi á hugbúnaði og tæknivörum að ef þessi tækni stenst ekki samanburð við það sem best er, bæði hvað varðar gæði og verð, þá verður hún ekki keypt. Ef þið lesið samþykktir bankans sem við erum að fjalla um er það eitt af skilyrðum bankans fyrir fjárveitingum að ekki verði hægt að einskorða lausnamengið sem fer inn í þessar framkvæmdir við ákveðin lönd. Það þarf að kaupa það sem er best og hagkvæmast á hverjum tíma. Þá munu íslensk fyrirtæki að sjálfsögðu eiga möguleika, ef þau eiga bestu og hagkvæmustu lausnina. Það verður ekki litið á það hvort við eigum 0,3% í bankanum.

Það er því af og frá að þetta muni hafa nokkur áhrif til þess að bæta hag íslenskra fyrirtækja eða íslenskra skattgreiðenda eða skipta nokkru máli fyrir nokkra neyð í heiminum. Ég tel þetta mjög gagnrýnivert.

Það er annað í þessu. Í andsvari við mig taldi fjármálaráðherra að þessi fjárfesting mundi mynda eign, framseljanlega eign, seljanlega eign, og það væru öll merki þess að með því að taka þátt í stofnun bankans og vera stofnaðili gætu menn horft fram á að virði fjárfestinga mundi vaxa og allt þar fram eftir götunum. En ef maður les samþykktina kemur í ljós að það er ekki hægt að selja hlutabréfin í bankanum. Maður getur ekki farið og selt þau á markaði. Maður getur innleyst þau í bankanum á bókfærðu verði.

Svo les maður í tímaritum sem fjalla um þennan banka og almenna heimspólitík að það verði hlutverk bankans að vera samfélagsbanki. Þetta er banki hinum megin á hnettinum, samfélagsbanki sem hefur ekki það hlutverk að skila hagnaði. Hlutabréf í bankanum munu ekki vera góð söluvara. Það væri vel sloppið að geta fengið peninginn sinn til baka án taps.

Ég skil ekki að á sama tíma og það má ekki hlusta á þá hugmynd að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka liggi reiðinnar býsn á að kaupa hlut í samfélagsbanka hinum megin á hnettinum, sem er ríkisbanki í eigu einhverra ríkissjóða. Ég skil þetta ekki. Erum við að fara að samþykkja þetta?

Ég verð að segja að þegar þessi heimild var veitt á fjáraukalögum talaði ég við marga þingmenn og þeir sögðu að þetta er væri heimild og ekki víst að hún yrði nýtt. Svo átti alveg eftir að skoða þessar samþykktir og öll þau fríðindi og heimildir sem er verið að veita bankanum.

Ef við kíkjum á heimildirnar og lesum þær vandlega stendur í samþykktunum sem liggja fyrir að bankinn greiði enga skatta, hvorki starfsmenn hans né ráðgjafar í fullu starfi, skv. 50. gr og 51. gr. Hann fær skv. 33. gr. að hafa reikning í Seðlabankanum. Bannað verður að rannsaka starfshætti bankans skv. 47. gr. Bannað að haldleggja eignir bankans skv. 47. gr. Bannað að hindra millifærslur á vegum bankans skv. 19. gr.

Erum við að fara að leyfa að hérna sé banki, fjölþjóðleg samtök, sem við höfum enga aðild að og höfum engin áhrif á og engin áhrif á stefnuna, sem við megum ekki hafa neitt eftirlit með? Það eru enn þá fjármagnshöft í landinu sem öll þjóðin þarf að sæta en þessi banki mun ekki þurfa að sæta þeim. Hann getur fært hér inn peninga, inn og út að vild.

Þetta eru býsna víðtækar heimildir sem verða ekki veittar án samþykkis okkar. En verði þær veittar er þessi banki kominn með heimild til að færa fjármagn til og frá landinu án þess að hægt sé að sporna við því á nokkurn hátt. Ekki verður hægt að kanna uppruna né tilgang fjármagnsflutninganna eða leggja á þá nokkurn skatt af nokkru tagi.

Hvers vegna ætti Ísland að veita nokkurri stofnun slíkar undanþágur frá lögum? Það er spurningin. Til þess að réttlæta slíkar undanþágur þurfa að vera miklir almannahagsmunir í húfi. Eru þeir hér undir? Það er mjög óljóst.

Fleiri spurningar vakna. Af hverju er framlag Íslands þrjátíufalt stærra en Portúgala miðað við íbúafjölda? Af hverju taka einungis 50 af 200 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna þátt í þessum banka? Af hverju vilja Bandaríkin, Kanada, Mexíkó, Japan, Tævan, Argentína, Marokkó og fleiri ríki ekki vera með? Hvers vegna ættu íslenskir skattgreiðendur að leggja til hliðar 2,3 milljarða í gjaldeyri til að styðja útrás íslenskra fyrirtækja í Asíu, fyrirtæki sem við vitum ekki hver eru og kemur greinilega fram að ekki er hægt að hygla þótt að við leggjum þessa peninga að veði?

Hafa einhver íslensk fyrirtæki þrýst á aðild að þessum banka? Ég hef ekki orðið var við það. Ég vona að sú nefnd sem fjallar um þetta mál kanni það mál. Hvaða fyrirtæki eru þetta?

Vonandi mun bankinn gegna mikilvægu hlutverki í uppbyggingu innviða í Asíu í framtíðinni en árangurinn mun trauðla ráðast af því hvort Ísland verður með eða ekki. Þetta er ekki þróunarbanki af þeirri tegund að hann muni hjálpa sveltandi börnum. Ef auka á þróunaraðstoð okkar skulum við beina henni þangað sem neyðin er sárust.

Erfitt er að sjá að þessi aðild muni hafa nokkuð að segja fyrir íslenskt atvinnulíf. Allt sem hefur komið fram hér er bábilja. Hitt er alveg skýrt að 2,3 milljarðar króna eru miklir fjármunir sem gætu runnið til mikilvægari verkefna hér og Ísland þarf að fara mjög gætilega í því að veita stofnunum undanþágu frá lögum, sköttum og eftirliti, ekki síst stofnunum þar sem áhrif Íslands eru engin.