145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 115/2015 um breytingu á XIII. viðauka og XIX. viðauka við EES-samninginn.

430. mál
[12:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/215, um breytingu á XIII. viðauka um flutningastarfsemi og XIX. viðauka um neytendavernd við EES-samninginn, og fella inn í samninginn reglugerð um réttindi farþega í hópbifreiðum.

Reglugerðin hefur það að markmiði að bæta réttindi og neytendavernd farþega í hópbifreiðum til jafns við réttindi og neytendavernd flugfarþega og farþega á sjó. Reglugerðin tekur fyrst og fremst til farþega í áætlanaferðum sem eru að minnsta kosti 250 kílómetrar. Ákvæði reglugerðarinnar eiga að tryggja farþegum fullnægjandi aðstoð og bætur ef tiltekin töf verður á ferðum. Þá er kveðið á um aðstoð til handa fötluðum og hreyfihömluðum á hópbifreiðastöðvum og um borð í hópbifreiðum. Lágmarksreglur eru settar um upplýsingagjöf til farþega um réttindi þeirra og ferðaupplýsingar, um kvörtunarþjónustu þeim til handa og um sjálfstæðar stofnanir í hverju ríki sem annast skulu framfylgd reglugerðarinnar.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir því að hæstv. innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til laga um almenningssamgöngur á yfirstandandi þingi. Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi er hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.