145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 188/2015 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

432. mál
[12:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 188/2015 um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins um flutningastarfsemi og fella inn í samninginn tilskipun um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum.

Tilskipunin breytir eldri tilskipun þannig að frekari áhersla er lögð á að gera brot gegn reglum um mengun hafs frá skipum refsiverð samkvæmt hegningar- eða sérrefsilögum. Slík refsiábyrgð á að falla á einstaklinga en einnig er til þess tekið að leggja beri ábyrgð á lögaðila sem að málinu koma.

Skilyrði refsiábyrgðar eru almenn saknæmisskilyrði, ásetningur eða stórfellt gáleysi ásamt því að verknaður rýri vatnsgæði. Ekki er gert ráð fyrir að refsað sé fyrir smáleg brot sem rýra ekki vatnsgæði en gert er ráð fyrir að ítrekuð slík brot eigi þó að leiða til refsiábyrgðar. Tilskipunin felur ekki í sér skilyrði um beitingu og lögsaga hennar er háð löggjöf hvers ríkis um sig. Tilskipunin kveður ekki á um hversu háar sektir eða hversu löng fangelsisrefsing skuli liggja við viðkomandi brotum, heldur aðeins hvers konar umhverfisbrot skuli talin refsiverð, hverjir skuli bera refsiábyrgð og hvers konar þátttaka í brotum skuli talin refsiverð.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda á yfirstandandi þingi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.