145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 191/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

433. mál
[12:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál og fella inn í samninginn tilskipun um vernd umhverfisins með refsiákvæðum.

Tilskipunin kveður á um að refsiákvæðum skuli beitt til þess að vernda umhverfið með árangursríkari hætti. Þannig skal tryggja að viðurlög við brotum séu áhrifarík í samræmi við brotin og hafi varnaðaráhrif og að tiltekin háttsemi sé gerð refsiverð þegar hún er ekki í samræmi við lög og reglugerðir og framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Samkvæmt tilskipuninni eru ekki aðeins ólögmætar athafnir refsiverðar heldur einnig tiltekin vanræksla.

Tilskipunin kveður ekki á um hversu háar sektir eða hversu löng fangelsisrefsing skuli liggja við viðkomandi brotum, aðeins hvers konar umhverfisbrot skuli refsiverð, hverjir skuli bera refsiábyrgð og hvers konar þátttaka í brotum er refsiverð.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hérlendis og er gert ráð fyrir að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir á yfirstandandi þingi.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.