145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langaði að spyrja sérstaklega um það sem hún nefndi og kemur fram á bls. 25 í greinargerðinni, sem eru þær breytingar sem er sagt að sporni gegn kennitöluflakki. Kennitöluflakk er búið að vera mikið til umræðu og margir orðnir langeygir eftir frumvarpi frá hæstv. ráðherra um markvissar aðgerðir til að sporna gegn því. Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti útskýrt fyrir okkur þær breytingar sem lagðar eru til um að dauðum félögum, eins og það er orðað, verði gert skylt að skila ársreikningum. Hvernig á sú breyting eftir að virka til þess að sporna gegn kennitöluflakki? Gott væri ef hæstv. ráðherra gæti farið ítarlegar yfir það.

Hæstv. ráðherra hefur líka sagt að þetta frumvarp sé nauðsynlegt til þess að aðrar breytingar verði gerðar, eins og ég skildi hana. Hún getur þá leiðrétt mig ef það er rangur skilningur að þetta frumvarp þurfi að verða að lögum áður en hægt sé að leggja fram frumvarp um aðrar breytingar til að sporna gegn kennitöluflakki. Mig langar að spyrja af hverju það er, ef það er réttur skilningur hjá mér.

Að lokum: Hvenær eigum við von á einhverju frumvarpi til þess að sporna gegn kennitöluflakki? Ég held að við getum öll sameinast um að það er algjörlega óásættanlegt að kennitöluflakk tíðkist enn þá miðað við þann góða vilja sem hefur komið fram hjá stjórnmálamönnum þvert á flokka að taka á því.