145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:47]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála. Þetta snýst nefnilega um að ekki er hægt að banna þetta athæfi með einfaldri lagasetningu heldur er þetta nokkuð sem við öll þurfum að taka þátt í að breyta.

Hv. þingmaður nefndi að ekki væri hægt að rekja upplýsingar. Þetta bætir það. Hér erum við að bæta ársreikningaskilin. Hér geta birgjar, lánardrottnar og aðrir fengið upplýsingar með einföldum hætti. Þegar við erum búin að koma fyrirtækjaskránni og ársreikningaskránni í rafrænt form verður einfalt fyrir lánardrottna eða birgja að leita eftir upplýsingum.

Auðvitað þurfum við núna að spyrja okkur hvernig þessi starfsemi geti átt sér stað. Af hverju? Maður heyrir sögur um að hinir og þessir hafi keyrt fjöldann allan af fyrirtækjum í þrot. Af hverju fá þessir einstaklingar alltaf lán? Af hverju selja birgjar þessum einstaklingum alltaf vörur upp á krít og fá aldrei borgað? Þetta finnst mér vera algjörlega óskiljanlegt.

Þau verkfæri sem við getum beitt eru til dæmis að setja á laggirnar hlutafélagaskrá á netið, eins og hefur verið unnið að í Danmörku í dálítinn tíma, það er flókið, þannig að alltaf sé hægt að fylgjast með. Skráin er lifandi. Þar er líka ákveðið jafnvægi á milli persónuverndar og slíks og þess vegna hefur þetta tekið langan tíma í Danmörku. Það er líka hægt að fara út í lagasetningu og banna fólki sem hefur farið á hausinn, hvort sem það er einu sinni, tíu sinnum eða oftar, þ.e. setja einhver mörk, að setja aftur á laggirnar fyrirtæki eða sitja í stjórnum fyrirtækja. Þetta er eitthvað sem við getum skoðað.

Við verðum hins vegar alltaf að gæta þess að það er ekki ólöglegt að fara á hausinn, t.d. í nýsköpunargeiranum þar sem við sjáum frábæra grósku núna (Forseti hringir.) á Íslandi. Ég veit að hv. þingmaður deilir þeirri sýn með mér að efla nýsköpun. Þar fara menn á hausinn, bæta hugmyndina (Forseti hringir.) og koma aftur. Þar er það talinn kostur. En það er ekki kostur ef menn eru að svíkja og pretta. (Forseti hringir.) Þeim viljum við ná.