145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

ársreikningar.

456. mál
[13:58]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegur forseti. Þessi umræða um frumvarpið hefur farið dálítið út um víðan völl, finnst mér, því að það er eins og frumvarpinu sé fyrst og fremst ætlað að taka á glæpastarfsemi, get ég kallað vegna þess að það að svíkja út vörur og verðmæti og skilja skuldir eftir í hlutafélögum án nokkurrar ábyrgðar er náttúrulega glæpastarfsemi og fjársvikastarfsemi.

Fyrst ætla ég að segja að þessu frumvarpi er fyrst og fremst ætlað að auka gagnsæi í viðskiptalífi og þar sem reikningshald er skipulögð færsla fjárhagslegra upplýsinga þá er birting ársreiknings birtingarmynd fjárhagslegra upplýsinga. Allt sem eykur skýrleika í viðskiptalífinu ætti að vera til bóta.

Ég vil minna þingmenn á að í ýmsum lögum er tekist á við það sem er kallað kennitöluflakk, t.d. í hegningarlögum þar sem er fjallað um hrein fjársvik. Ef um veðsvik er að ræða er náttúrulega fjallað um það í lögum um veð.

Hverjir verða fyrir tjóni? Jú, það eru oft á tíðum eins og ágætir menn segja bankar og bensínstöðvar, bankar og birgjar. Ég vorkenni í rauninni bönkum minnst í þessu sambandi því að þeir hafa allar aðstæður til þess að ganga úr skugga um það til hvers konar viðskiptasambanda þeir stofna og þarf ekki lagabreytingar til. Við skulum muna það. Sömuleiðis geta birgjar krafið viðsemjanda sinn um upplýsingar ellegar tryggingar vegna fyrirhugaðra viðskipta. Það er ekki hægt að leggja allt á hæstv. viðskiptaráðherra, að hún bjargi öllu í þessu máli. Það verður að gera kröfu til þeirra sem stunda viðskipti að þeir vinni sína heimavinnu. Mörg eru tækin í þeim efnum.

Sömuleiðis vil ég vekja athygli á því að stjórnarseta í hlutafélögum getur haft í för með sér verulega ábyrgð. Ef reglum hlutafélagalaga er ekki fylgt, þ.e. lögum um takmarkaða ábyrgð, þá er spurning hvort þetta hafi nokkurn tíma verið hlutafélag heldur einkaviðskipti þeirra einstaklinga sem stóðu að viðskiptunum.

Ýmsar eru leiðirnar sem ég ætla ráðherra ekki að leysa úr.

Næst vil ég nefna að hið opinbera hefur tryggt sig að nokkru leyti, t.d. í vörslusköttum þar sem mjög stífar refsiábyrgðir eru lagðar á þá sem stunda rekstur. Heimildirnar eru ýmsar til að koma í veg fyrir að fyrirtæki séu tæmd af verðmætum og skildar eftir skuldir.

Eitt ætla ég að nefna í framhjáhlaupi sem hvarf nú eiginlega með sparisjóðunum. Það gerðist alloft í sparisjóðum að menn komu að sunnan með mikla veltu og voru oft miklir bjargvættir sparisjóða um stund. En slíkir herramenn að sunnan með mikla veltu skildu eftir sig skuldir og slóð. Þá er ég aftur kominn að þeim upphafspunkti að fjármálastofnanir hafa skyldur til að verja sig og hafa tæki til að verja sig.

Ég bara treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd vinni sína vinnu og komi þessu frumvarpi í gegn, einfaldi skil, bæti skil og auki gagnsæi og virkni í viðskiptalífinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri.