145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:17]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hugsunin með frumvarpinu er að ná utan um ákveðinn hluta af þessum veruleika, þ.e. að þegar einstaklingar, fjölskyldur, vilja drýgja tekjur sínar með því að leigja út heimili sitt eða sumarhús eða aðra eign til dæmis þegar viðkomandi fer í sumarfrí eða nýtir ekki eignina á þeim tíma. Þetta nær utan um deilihagkerfishugsunina. Það er erfitt að setja skýr mörk þannig að við séum viss um að þetta verði ekki misnotað eða skekki samkeppnisaðstöðu þeirra sem eru í atvinnustarfsemi.

Varðandi spurningu þingmannsins um tíu rúma gistiheimilið þá er sett inn það skilyrði hér að það sé lögheimili viðkomandi eða önnur eign sem er til persónulegra nota. Ég á ekki von á að það séu margir með tíu rúma gistiheimili til persónulegra nota. Að sjálfsögðu verður það haft sem viðmið en hugsunin er sú að um sé að ræða lögheimili eða sumarbústaðinn. Það er mengið.

Hvað varðar brunavarnirnar þá er alls staðar gerð krafa um slíkt, líka í þessu efni; menn verða að uppfylla ákveðnar kröfur um brunavarnir, þannig að það sé skýrt.

Varðandi póstnúmerið. Við undirbúnings þessa frumvarps var það mikið rætt og var auk þess hugmynd á einhverjum tíma að leggja til að leigja mætti út lögheimili og aðra eign, þó ekki í sama póstnúmeri. Þá ráku menn sig á til dæmis — ég get nefnt dæmi úr mínu kjördæmi — að ef einhver býr á Höfn í Hornafirði, á sumarbústað í Lóninu, þá er það sama póstnúmer. Þannig að við vildum ekki (Forseti hringir.) torvelda hlutina með þessum hætti. Því varð niðurstaðan sú að þetta væri til persónulegra nota en skýringarnar settar inn í greinargerðina til að menn sæju við hvað er átt.