145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum svarið. Það er auðvitað miðað við fimm herbergi með tíu rúmum og þess vegna er gert ráð fyrir að það sé til staðar, þess vegna spyr ég. En það er ágætt að fá þessi svör.

Grunnhugsunin er góð í þessu, en gert er ráð fyrir að viðkomandi aðili megi leigja út í 90 daga allt árið, ef ég skil það rétt. Það þarf ekki að vera samfleytt heldur má það ná yfir allt árið. Eftirlitið hlýtur að verða ansi snúið, ég held að það hljóti bara að vera. Það á að skila skýrslum um daganýtinguna. Það er ekkert flókið í sjálfu sér að skila því. Það getur hver og einn gert það en leigt svo umfram það, kjósi hann svo. Þetta er jú starfsemi sem við erum að reyna að fá upp á yfirborðið, starfsemi sem fólk hefur farið með fram hjá lögunum.

Svo hef ég líka velt því fyrir mér því sem kemur fram á blaðsíðu 24, að lögreglan hefur í rauninni ekki sinnt eftirliti nema ef henni hefur verið bent á það. Sveitarfélögin eiga svolítið að halda utan um þetta og láta vita, sérstaklega varðandi rekstur veitingahúsa og svoleiðis. En hvað breytist í raun við eftirlitsþáttinn annað en að einhver mun sjá sér hag í að tilkynna það til viðkomandi aðila?

Svo er það þetta með atvinnustarfsemi eða ekki atvinnustarfsemi. Þá detta mér í hug leigutekjur. Af hverju var því ekki velt upp? Hér á höfuðborgarsvæðinu vitum við til dæmis að maður getur leigt út húsnæði í 90 daga fyrir gríðarlegar fjárhæðir en maður gerir það hugsanlega ekki einhvers staðar úti á landsbyggðinni þar sem tekjurnar verða miklu minni af svona starfsemi en þær geta orðið hér.