145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherranum fyrir að flytja þetta mál nú. Víst er að margt er til bóta í þessu frumvarpi miðað við það sem var flutt í fyrravor en hér eru samt enn þá atriði sem ég er mjög hugsi yfir. Hér er talað fyrst og fremst um einföldun kerfisins og það er af hinu góða en ég velti hins vegar fyrir mér hvaða einföldun er falin í því að færa eftirlit frá lögreglunni til sýslumanns og að færa umsjónina með þessu máli frá lögreglu til sýslumanns. Ég sé ekki betur en að hér sé eftirlit og skráning og fleira á tveggja hendi, þ.e. sýslumenn eiga að sjá um skráningu, þeir eiga síðan að fela lögreglunni að hafa eftirlit. Þetta þykir mér vont.

Ég er líka sannfærður um að þetta er dýrara þegar upp er staðið fyrir ríkissjóð en að hafa þetta allt á einum stað, undir einu þaki. Lögreglan er í miklu betri færum til þess að hafa eftirlit með þessum málum en sýslumannsembættin. Ég held að ef menn ætla að halda uppi einhverju alvörueftirliti af hálfu sýslumanns þá hljóti það að kalla á mannaráðningar. Aftur á móti getur lögreglan sem best samtvinnað þessi verkefni öðrum eftirlitsverkefnum sem hún sinnir. Þannig að þarna sé ég ekki einföldunina.

Það eru líka önnur atriði sem ég velti aðeins fyrir mér, t.d. varðandi brunavarnir. Ég sé í athugasemdum að í Katalóníu á Spáni eru strangari reglur um útleigu til ferðamanna, þ.e. varðandi heimagistingu, þá er mælt fyrir um að eigandi skuli vera á staðnum. Það segir sig sjálft að ef eigandi er ekki á staðnum þá hlýtur að þurfa að merkja mjög vel og ganga mjög vel frá brunamerkingum og flóttaleiðum sem eru náttúrlega kunnugar ef eigandinn er á staðnum. Þarna finnst mér því ekki alveg nógu skýrt að orði kveðið.

Það er eitt í viðbót sem ég vil nefna og er í 8. gr. frumvarpsins, þar segir: „Rekstrarleyfi til starfsemi samkvæmt lögum þessum skal vera ótímabundið.“ En síðan er talað um að eftirlitið sé háð eftirlitsgjaldi. Og nú spyr ég enn um einföldun. Er ekki réttara að hafa rekstrarleyfið til kannski fjögurra ára, endurnýja það síðan gegn gjaldi? Það getur margt gerst á fjórum árum. Hugsanlega slaka menn á klónni. Ég held að það væri miklu nær og væri líka til einföldunar að mæta á staðinn kannski á fjögurra ára fresti, þriggja ára fresti jafnvel, í staðinn fyrir að vera með eftirlit gegn eftirlitsgjaldi sem er ótilgreint og yrði náttúrlega líka íþyngjandi fyrir þá sem reka þessa starfsemi.

Þetta eru allt saman atriði sem hljóta að koma til skoðunar þegar málið gengur til nefndarinnar.

Ég vil fagna því að tímalengdin er orðin 90 dagar. Ég tel það af hinu góða vegna þess að átta vikna tímabilið taldi ég persónulega algjörlega ótækt. Ég held líka að þeir sem reka ársgistingu verði nú ekki kvaldir af því þó að þessi gisting sé í flokki I. Ef hún er rétt skráð þá á hún ekki að vera ógnun við þá sem eru í 12 mánaða gistingu með alvörugistiheimili eins og maður segir. Það á alls ekki að vera.

Ég fagna því mjög að frumvarpið skuli vera komið fram núna vegna þess að ástandið eins og það hefur verið, að aðeins 13% af þessu húsnæði skuli hafa verið skráð, hefur verið óþolandi, það er óþolandi undanskot á skattfé. En þá spyr ég mig líka um skráninguna. Þar sem frumvarpinu er ætlað að taka til heimagistingar þá hljótum við jafnframt núna, um leið og frumvarpið gengur sína leið í gegnum þingið, að herða eftirlit strax með lögaðilum sem eru óskráðir. Það er ekki eftir neinu að bíða með það vegna þess að þessi nokkur þúsund gistirými sem eru t.d. á höfuðborgarsvæðinu í útleigu eru alls ekki öll í heimagistingu. Það hlýtur að vera akkur fyrir okkur að byrja þá strax að, ég vil bara segja að herja á þá aðila þannig að þeir láti skrá sig þegar. Þá segi ég aftur: Þess vegna er nauðsynlegt að lögreglan haldi utan um þetta mál frá öllum hliðum en ekki að því sé kastað á milli sýslumanns og lögreglu. Ég tel það ekki gott.

Síðan kemur skráningargjaldið. Ótímabundið skráningargjald fyrir 8 þús. kall. Það kostar 25 þús. kall að eiga jeppa í hálft ár til þess að aka á um landið. Þarna geta menn gert sér að tekjum „forud“ fyrir 8 þús. kall. Ég er ekki alveg viss um að mér finnist þetta nándar nærri nógu há upphæð, þ.e. ef við ætlum ekki að tímabinda gjaldið. En þá segi ég aftur: Ég væri alveg til í þessa upphæð ef tímabilið væri fjögur ár eða eitthvað slíkt. Þarna held ég að við þurfum aðeins að athuga okkar mál.

Það kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi forseta: „Lögaðilum er ekki heimilt að skrá sig í flokk heimagistingar, einungis einstaklingum.“ Þetta er mjög gott ákvæði.

Þeir fyrirvarar sem ég er núna að fara yfir beinast allir að því að mér finnst ekki nógu langt gengið í einföldun. Einföldunin er þeirra megin sem reka gististarfsemi, einföldunin er ekki ríkisins megin. Það er ekki verið að spara fé með þessu fyrirkomulagi sem hér er sett fram.

Síðan er eitt atriði sem ég varð ekki var við að væri í athugasemdum með frumvarpinu. Nú er nýbúið að dreifa því þannig að ég bið ráðherra velvirðingar ef ég er að fara með rangt mál, en í skýrslu sem ráðherra vitnaði til áðan sem var gerð af Háskólanum á Bifröst er getið um tekjufærslu þessarar starfsemi eða hvað á ég að segja, hvar tekjur af útleigu þessarar starfsemi eigi heima, hvernig eigi sem sagt að skattleggja þessar tekjur. Það er spurning um það hvort að þurfi að skerpa þar á.

Ég hjó eftir því sem ráðherra sagði áðan um samráð við önnur ráðuneyti, að þar heyrði ég ekki fjármála- og efnahagsráðuneyti nefnt. Kannski er það bara af því að ég heyri ekki vel en það hefði þurft að vera með vegna þess að á bls. 15 í skýrslunni frá Háskólanum á Bifröst segir, með leyfi forseta:

„Reglur um skattlagningu tekna af skammtímaleigu eru ekki nægilega skýrar. Leigutekjur eru almennt skattskyldar samkvæmt c-lið 7. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003. C-liðs skattur, svokallaður fjármagnstekjuskattur, er 20% samkvæmt 3. mgr. 66. gr. tekjuskattslaga. Samkvæmt sömu málsgrein er 30% frítekjumark af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis. Atvinnurekstur er hins vegar skattskyldur samkvæmt b-lið 7. gr. tekjuskattslaga.“

Þarna tek ég undir með skýrsluhöfundum. Mér hefði fundist að með þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir þyrfti að vera skerping á því hvernig tekjur af skammtímaleigu eru skattlagðar. Það er líka til þess að skýra málin fyrir þeim sem hyggjast hasla sér völl á þessu sviði. Þeir hafa náttúrulega ekki þurft að hafa áhyggjur fram til þessa af því að þeir hafa ekki borgað neina skatta. En það er kannski ágætt fyrir þá að vita hvað það kostar ef þeir gerast löglegir. Ég held að það væri af hinu góða fyrir alla, fyrir þá sem hyggjast leigja út og fyrir ríkissjóð, að menn viti nákvæmlega að hverju þeir ganga til að vera í þessari starfsemi.

Ég held að þessi fjögur atriði sem ég nefndi aðallega þurfi að skoða betur, fyrst og fremst einföldunin, þ.e. að lögreglan sjái um allt utanumhald með þessu máli og ég verð að fá mjög sterk rök fyrir því að ekki sé rétt að gera það. Ég veit að það er verið að færa þetta frá núna en ég verð að fá mjög sterk rök fyrir því að það sé betra að lögreglan og sýslumaður séu að kasta þessu á milli sín en að lögreglan sé með þetta alfarið í sínum höndum.

Síðan, svo ég ítreki það, held ég að það yrði mjög til bóta ef við mundum setja skilyrði inn í frumvarpið svipað því sem gert er í Katalóníu að þegar menn leigja heimili sitt eða hluta þess séu þeir á staðnum og þess vegna sé ekki gefinn afsláttur heldur gert auðveldara um vik með brunavarnir.

En svo ég ítreki það þá er ég ánægður með að frumvarpið skuli vera komið fram. Ég efast ekki um að hægt er að sníða af málinu þá agnúa eða þau atriði sem ekki eru nógu skýr að mínu áliti og ég hlakka mjög til að taka þátt í því starfi í atvinnuveganefnd að afgreiða þetta mál fljótt og örugglega en með nauðsynlegum breytingum.