145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta andsvar. Það er ekki af engu sem ég tala um að sýslumenn séu ekki í færum til að hafa þetta eftirlit með höndum. Jú, rétt er það að sýslumannsembættum hafa verið færð verkefni við sameiningu en gallinn er sá að fjármagn hefur ekki fylgt, ekki nóg. Það hefur komið fram og það er áhyggjuefni.

Ég sé að talað er um í athugasemdum að 30–40 milljónir komi til, ef ég man rétt. Þá segi ég aftur: Ég held að þeim peningum væri betur varið til að styrkja lögregluna ef með þarf. Hæstv. ráðherra sagði að lögreglan hefði ekki komist yfir að sinna þessu eftirliti, (Gripið fram í.) en eftir sem áður er hér inni eftirlitsþáttur af hálfu lögreglu þannig að ég sé þá ekki hvernig lögreglan á að geta haft það áfram.

Það er reyndar eitt líka sem hæstv. ráðherra minntist á, sem er fagnaðarefni, það eru þessi númer sem gististöðum verða gefin. Ég tek það þá þannig að húsnæðið sem viðkomandi gisting er í verði líka merkt þessu númeri, það er að segja til dæmis við útidyr. Ég held að það væri mjög til bóta. Eigi svona beint eftirlit að fara fram þá hlýtur það að vera til bóta að sjá á færi hvort menn hafa númer uppi við eður ei. Það er þá hægt að sleppa því að heimsækja þá sem eru virkilega vel merktir.

Hvað varðar eftirlitsgjald og að það sé misskilningur þá ætla ég nú að taka það í næsta svari því að ég gat ekki betur séð en það stæði hér í athugasemdum með frumvarpinu að ætlast væri til þess að það yrði gert. En ef svo er ekki þá ætla ég enn að halda því fram að 8.000 kr. fyrir ótilgreint ótímabundið leyfi sé of lág upphæð.