145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar það að 8.000 kr. eigi ekki að verða tekjuöflun fyrir ríkissjóð þá ætla ég að halda því fram, sem gamall innheimtumaður ríkissjóðs og fjárgæslumaður ríkissjóðs, að 8.000 kr. séu bara ekki nóg til að standa undir þeim kostnaði sem skráningunni og eftirlitinu fylgir.(Gripið fram í.) Ég mundi vilja líta á þetta á þann veg að þetta félli að hugmynd um þjónustugjöld, þ.e. að upphæðin sem greidd er að samsvari kostnaðinum við þá þjónustu eða það eftirlit sem þarf að fara fram. (Gripið fram í.) Ég tók það svo, hæstv. ráðherra, takk fyrir þetta. En ég ætla samt að halda því fram að 8.000 kr. sé of lág upphæð því að útseld vinna ríkisstarfsmanns er að lágmarki 12.500 kr. ef ég þekki það rétt, sérfræðings í stofnun eða ráðuneyti.

En auðvitað eru þetta atriði, eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega, sem nefndin getur farið yfir.

Hvað varðar það að númering á þessu húsnæði sé líkleg til að verða segull fyrir innbrotsþjófa, þá leyfi ég mér að efast um það. Ég bendi á góða reynslu af öryggismerkingu sumarhúsa úti um allt land. Sumarhús hafa þá öryggisnúmer og ef eitthvað kemur upp á þá eru þau kortlögð þannig að eftirlitsaðilar geta komið á staðinn. Fyrir utan það að númering á húsnæðinu segir líka viðskiptavininum, sem er að leigja, að þarna sé skráð starfsemi, að ekki sé verið að versla við skattsvikara eða þá sem stunda skattasniðgöngu, svo að maður sé kurteis. Þannig að ég held að það gæti alveg verið ágætisatriði.

En auðvitað förum við yfir þetta í nefndinni og eins og ég sagði áðan hlakka ég til að afgreiða þetta fljótt og vel. Ég mundi hins vegar mæla mjög sterklega með því — það er auðvitað rétt að skattlagningin er annars staðar og í öðru ráðuneyti og í öðrum lögum — að þau lög verði þá tekin til skoðunar, eða þau ákvæði, samhliða þessu þannig að hvort tveggja fái afgreiðslu á svipuðum tíma.