145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[15:01]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og ítreka þá hugsun að við erum að tala um heimild til einstaklinga í 90 daga, ólíkt því sem gerist þegar menn eru í atvinnustarfsemi sem ber hærri fasteignagjöld.

Varðandi d-lið 15. gr., vika eða þrjár vikur, þá hef ég nú skipulagt það margar uppákomur með stuttum fyrirvara að ég hef ákveðna samúð með þessu sjónarmiði og hvet nefndina til að skoða það.

Varðandi veitingastaði í flokki I sem geta verið stórir og að taka þurfi tillit til þess: Já, ég er sammála því en ég held að sveitarfélögin séu best til þess bær að meta hvað þeir eiga að vera lengi opnir og hvar þeir mega vera. Þau eru með skipulagsvaldið, þau eru með nærumhverfið, þannig að ég held að það sé gott fyrir sveitarfélögin að geta tekið þessa ákvörðun sjálf. Það er það sem við erum að vísa til með opnunartíma: þetta fellur inn í verksvið þeirra almennt.

Varðandi eftirlitið og hvatningu frá þingmönnum, eins og ég skil það, til að fara í eftirlit strax, ná utan um þetta strax, og passa upp á að þetta fari vel af stað, þá er ég algjörlega sammála. Ég held að það sé það sem verði að vanda vel til þegar þetta kerfi fer af stað, þ.e. að það sjáist að við treystum fólki. Við erum að segja: Komið þið með, við erum með tillögu að lausn fyrir þetta ákveðna viðfangsefni, við ætlum að hafa reglurnar einfaldar og skýrar, en við munum fylgja þeim vel eftir. Komið þið með okkur í þetta verkefni. Ég er mjög spennt að sjá hvort þetta virkar.

Ef það reynist þannig að meira eftirlit þurfi, að fólk sé að svindla, þá verð ég bara að éta hatt minn og viðurkenna að ég hafi verið of auðtrúa hvað varðar mannlegt eðli. En ég vil trúa því, og hef heyrt nógu marga segja mér það, að þeir vilji taka þátt (Forseti hringir.) í þessu deilihagkerfi en að það sé of flókið að gera það löglega. Ég hef fulla trú á að þetta muni hjálpa okkur í því.