145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[15:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum þetta. Það sem ég átti við varðandi þessa staði, og það að sveitarfélögin séu best bær til að finna út úr því, er aðallega þetta: Eigum við að segja hámark á borðafjölda yfirleitt eða gestafjölda? Eða mega staðirnir taka þúsund manns, bara ekki selja áfengi til að falla í neðsta skala? Þó að menn hafi kannski mest upp úr því að selja áfengi þá hafa menn auðvitað líka tekjur af hinu. Þess vegna finnst mér að nefndin þurfi aðeins að skoða hvort ástæða er til þess.

Varðandi merkin — það var það sem ég var að velta fyrir mér. Ef ég er með fyrirtæki í rekstri sem lýtur þeim lögum sem nú eru í gildi og það á að endurnýjast eftir tvö ár, fæ ég merkið um leið og lögin taka gildi 1. maí eða ekki fyrr en kemur að endurnýjunartíma, er það svoleiðis? Það er það sem ég var að spá í upp á að númerakerfið (Iðnrh.: Hugsunin er strax.) — já, það er ágætt að vita af því. Mér finnst einmitt að það eigi að gerast sem allra fyrst. Ég held að það sé mikilvægt að þetta fari þá bara út í kerfið um leið.

Mér finnst þetta hafa verið fín umræða og þetta er áleiðis. Við þurfum bara að reyna að snyrta þetta örlítið til, þá held ég að vert sé að láta á þetta reyna.