145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[15:10]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og ég skil þingmanninn þá er hann að velta fyrir sér af hverju við erum að binda þetta við eignina, ákveðinn tíma, í staðinn fyrir að ef ég vildi bara leigja forstofuherbergið mitt allt árið til ferðamanna þá sé mér heimilt að gera það. Mér er heimilt að gera það, en þá fell ég ekki undir þessi lög, þá er þetta bara herbergi til leigu og lýtur almennum leigulögum, eins og þegar maður leigir forstofuherbergi til námsmanna við háskólann eða eitthvað slíkt. Þá fer það eftir þeim lögum og er ekki bundið af því hver leigjandinn er, ef maður er með herbergið til leigu allt árið um kring eins og ég skil fyrirspurnina.

Af hverju 90 dagar? 90 dagar er vegna þess að það sem er verið að reyna að ná utan um hér er bara þetta venjulega fólk sem vill ná sér í aukatekjur eða taka þátt í deilihagkerfinu með því að leigja t.d. út íbúðina sína þegar það fer í burtu í sumarfrí og ná sér í tekjur á meðan, annaðhvort eignina eða sumarbústað, en ekki einhvern sem stendur að öllu jöfnu í leigustarfsemi. Það er sú hugsun sem hér birtist. Ég horfi á þingmanninn og ég er örugglega eitthvað að misskilja fyrirspurnina vegna þess að hann er dálítið hugsi á svipinn. En eins og ég skil fyrirspurnina þá erum við að tala um tvo ólíka hluti.