145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[15:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held við séum ekkert að misskilja hvort annað, en ég er þá bara svolítið ósammála þessari leið. Já, það er rétt, frumvarpið mætir þörfum þess fólks sem vill leigja út húsið sitt á meðan það fer í frí og má gera það upp undir 90 daga, en það mætir ekki hinu fólkinu. Ég held að flestir sem taka þátt í deilihagkerfinu og leigja hluta af sínu rými, forstofuherbergi eða stúdíóíbúð í kjallara eða eitthvað, á Airbnb, geri það allt árið. Er ekki markmið frumvarpsins að reyna að ná því? Mjög margir leigja einfaldlega rýmið út allt árið eða mundu gjarnan vilja gera það allt árið. Markmið frumvarpsins er að reyna að ná þessari starfsemi upp á yfirborðið, að hún komi upp á yfirborðið og fólk greiði skatta og gjöld, og einfalda regluverkið í kringum nákvæmlega þessa starfsemi þegar fólk leigir út forstofuherbergi til ferðamanna allt árið. En þetta frumvarp gerir það ekki. Það einfaldar ekki regluverkið gagnvart því fólki. Það þarf eftir sem áður, ef það ætlar að stunda þennan lífsstíl að leigja út ferðamönnum allt árið, ekki bara í 90 daga eða meðan það fer í frí, að fara í gegnum allan þennan frumskóg leyfa og allt saman. Það verður í rauninni höndlað áfram eins og það sé í gistiheimilisrekstri. Það gagnrýni ég. Mér finnst það skrýtið.

Mér fannst betri tillagan sem kom frá hópnum um einföldun á regluverki í ferðaþjónustu sem sagði, og ég held að ég fari örugglega rétt með: Það má leigja allt að tvö rými í eigin eign án þess að þurfa að fara í gegnum allan frumskóginn. Það var bundið fjölda rýma. Þá náum við öllum þessa litla heimilisrekstri, sem ég held að ekki sé hægt að segja að sé einhver rosalegur atvinnurekstur, upp á yfirborðið. En frumvarpið eins og það er lagt fram gerir það ekki. Það mætir bara þörfum fólks sem ætlar að fara í frí og leigja út húsið sitt á meðan. Við erum ekki að tala um það endilega þegar kemur að Airbnb.