145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[15:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við skiljum hvort annað, það er allt saman orðið frekar skýrt um hvað verið er að tala. Það er þá þannig að frumvarpið mætir bara þörfum þess fólks sem vill fara í frí og leigja út húsið sitt á meðan eða leigja út sumarbústaðinn sinn meðan það er ekki að nota hann. Það held ég að sé frekar lítill hópur, án þess að ég viti það svo sem, af þeim sem stunda það að leigja út á Airbnb. Ef markmiðið er að reyna að ná deilihagkerfinu þegar kemur að heimagistingu, að ná þessari Airbnb-væðingu upp á yfirborðið og einfalda regluverkið í kringum það allt saman, fagna þeirri fjölbreytni sem birtist í gistimöguleikum með tilkomu Airbnb, þá mundi ég nú leggja þá skoðun í púkkið að það yrði að fara aðra leið. Mér finnst sú leið sem var lögð til í skýrslunni betri, að segja einfaldlega við fólk sem vill leigja út rými að það sé bundið við tiltekinn fjölda rýma. Mér finnst skynsamlegt að binda það við tvö rými, tvö herbergi eða eitthvað svoleiðis. Ég held að heimagisting eins og hún er núna með allri leyfisskyldu og því öllu sé núna bundin við átta rými, þannig að það væri strax verið að keyra það mjög mikið niður. Ef fólk vill leigja út tvö rými væri það innan marka þess að vera ekki í atvinnurekstri, það væri bara eðlileg þátttaka í deilihagkerfinu. Ef við bindum gistinguna við daga held ég að við fáum ekki þá niðurstöðu að þessi starfsemi komi upp á yfirborðið. Þá held ég að fólk sem vill leigja út allt árið muni freista þess að gera það áfram á svörtu.