145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

sala Landsbankans á hlut sínum í Borgun.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég tek áfram undir ábendingar hv. þingmanns en vil þó vegna síðustu orða hans, um mikilvægi þess að búa til umgjörð, benda á þá staðreynd að menn hafa á síðustu árum leitast við að skapa sem mestan aðskilnað á milli stjórnmálanna og bankanna ekki hvað síst.

Þar af leiðandi er erfitt og jafnvel ómögulegt fyrir stjórnmálamenn að skipta sér af hlutum sem virðast ekki vera í lagi. Það þarf þá að gerast í gegnum þær stofnanir, það fyrirkomulag, sem komið hefur verið á til að fylgja slíkum málum eftir.

Þessi mikla áhersla á að stjórnmálin komi hvergi nærri — það má velta því fyrir sér í þessu samhengi hvort menn geti jafnvel gengið of langt í því efni. Kannski þurfa stjórnmálamenn, fulltrúar almennings, að hafa fleiri tækifæri til að skipta sér af; ekki til að skipta sér af daglegum rekstri banka eða slíku heldur til að grípa inn í ef eitthvað fer augljóslega úrskeiðis.