145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

staða heilbrigðiskerfisins.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í þessari mikilvægu umræðu verða menn að sýna sanngirni. Þessi ríkisstjórn leggur áherslu á heilbrigðismálin. Hún hefur forgangsraðað í þágu heilbrigðismála að því marki að á sama tíma og við rekum íslenska ríkið með afgangi, þrátt fyrir þessa miklu vaxtagreiðslu sem ég nefndi áðan er íslenska ríkið rekið með afgangi, eitt fárra ríkja í Evrópu, þá erum við að auka framlög til heilbrigðismála meira en áður eða um meira en 10% milli ára. Milli áranna 2015 og 2016 um meira en 10%. Þetta er fáheyrt. Þetta er 17 milljarða kr. aukning. Við erum komin í 164 milljarða í heilbrigðiskerfið sem sýnir okkur að þetta er töluvert meira en 10% aukning milli ársins 2015 og 2016. Það er svo sannarlega unnið að endurreisn heilbrigðiskerfisins þó að þörfin verði áfram til staðar fyrir auknar fjárveitingar. En til að standa undir því þurfum við að framleiða meiri verðmæti í þessu landi.