145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

ráðstöfun eigna á Stjórnarráðsreit.

[15:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er væntanlega rétt skilið hjá mér, og ég bið hæstv. forsætisráðherra að leiðrétta mig ef svo er ekki, að um þetta hefur ekki verið fjallað í ríkisstjórn Íslands og að viðræður milli forsætisráðuneytis og Landstólpa þróunarfélags fela í sér hugmyndir um makaskipti sem byggja á hugmyndum um ráðstöfun Stjórnarráðsreits án þess að um það hafi verið fjallað í ríkisstjórn og án þess að um það hafi verið fjallað í samskiptum við það ráðuneyti sem fer með ríkiseigur.

Það er mikilvægt út frá eftirlits- og aðhaldshlutverki Alþingis að þetta fáist staðfest því að það er í besta falli undarlegt ef hæstv. forsætisráðherra telur það sæma og telur það góða pólitík að ræða um ráðstöfun ríkiseigna án þess að fyrir liggi 6. gr. heimild, sérstakt samráð við fjármálaráðherra eða umræður í ríkisstjórn þar sem ráðherranum er falið þetta verkefni.