145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

heilbrigðiskerfið.

[15:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra kom með yfirlýsingu á facebooksíðu sinni fyrr í dag sem andsvar við undirskriftalista Kára Stefánssonar sem heitir Endurreisn, en nú hafa um 44.000 Íslendingar skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að verja 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála.

Með leyfi forseta, vísa ég í orð hæstv. forsætisráðherra:

„Ég er sammála þeim sem telja mikilvægt að auka framlög til heilbrigðismála. Það höfum við gert á undanförnum árum og það þurfum við og eigum að gera áfram. Að mæla heilbrigðisþjónustu aðeins út frá ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu er hins vegar vafasöm leið. Landið sem er með hæsta hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála er Túvalú (18,5%) og í öðru sæti eru Bandaríkin með 17,1 (World Bank 2013). […] Við þurfum að halda áfram að auka verðmætasköpun í landinu og setja meira í heilbrigðismál og almannatryggingar. Þannig þurfum við að forgangsraða hvort sem hlutfall af VLF verður hærra eða lægra en til dæmis í Síerra Leóne.“

Ég vil taka fram að það er ánægjulegt að sjá hve hæstv. forsætisráðherra er vel að sér í tölfræði. Ég hef tekið eftir því að stundum vísar hæstv. forsætisráðherra í tölfræði frá OECD og stundum frá öðrum alþjóðastofnunum, núna síðast í tölfræði World Bank. Því langar mig að spyrja: Hvernig velur hæstv. ráðherra hvaða tölfræði er réttast að vitna í? Hvernig hyggst forsætisráðherra stuðla að aukinni verðmætasköpun í landinu? Og hvernig hyggst ráðherrann tryggja bráðaviðbrögð við því neyðarástandi sem nú ríkir í heilbrigðiskerfi landsmanna?