145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Í lok síðustu viku bárust okkur þau ánægjulegu tíðindi að svokallaður SALEK-hópur, þ.e. aðilar vinnumarkaðarins, hefðu náð mjög mikilvægri sátt á vinnumarkaði, útfærslu á kjarasamningum sem gerðir voru síðast, og að það gildi til ársloka 2018, jafnvel fram á árið 2019. Við hljótum öll að fagna því mjög að þetta sé gert og að þessi sátt skuli vera. Frá ríkisstjórn hefur komið fram að hún ætli að bæta aðilum vinnumarkaðarins þetta með því að lækka tryggingagjald. Það er allt saman mjög ánægjulegt.

En það er einn hópur í þessu þjóðfélagi, virðulegi forseti, sem ég vil gera að umtalsefni og spyrja hæstv. forsætisráðherra út í, þ.e. kjör aldraðra og öryrkja. Við deildum mjög, bæði við fjáraukalagagerð og fjárlagagerð, um hvernig ætti að hækka greiðslur til aldraðra og öryrkja. Það voru meðal annars þessi 5,5% sem áttu að koma 1. maí á þessu ári en í umræddu samkomulagi hefur það verið fært til 1. janúar síðastliðins og 0,7% bætt við þannig að almenn laun munu hækka um 6,2% frá 1. janúar síðastliðnum.

Ríkisstjórnin er í raun og veru, ásamt okkur alþingismönnum, kjararáð aldraðra og öryrkja. Við erum viðsemjendur aldraðra og öryrkja, það erum við sem ákveðum kjör þeirra. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ekki alveg 100% klárt að ríkisstjórnin ætli að hækka greiðslur til aldraðra og öryrkja strax í upphafi árs frá 1. janúar eins og samkomulag hefur orðið um á vinnumarkaði og hvort það komi þá ekki strax hér inn.

Að mínu mati eru þetta í kringum 6.000–7.000 kr. eftir skatt og ég vil ræða þetta út frá því. Í dag, eftir þær hækkanir sem hafa komið fram, eru þetta 186.000 kr. eftir skatt og það lifir enginn mannsæmandi lífi á því. Ég veit að við forsætisráðherra erum örugglega sammála um það. Eða er ekki svo, virðulegi forseti?