145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ætli það sé ekki ástæða til að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja aftur máls á þessu atriði, stöðu eldri borgara og hvernig greiðsla lífeyris hefur þróast?

Það er gott að fá tækifæri til þess að ítreka það sem við bentum á hér fyrir áramót — mér fannst hv. þingmaður ekki vera nógu móttækilegur fyrir því þá, eða ekki alveg átta sig á því — að þrátt fyrir að lífeyrisgreiðslur séu, samkvæmt lögum, færðar upp um áramót þá er með þeirri uppfærslu tekið tillit til þeirra breytinga sem hafa orðið hjá öðrum hópum yfir árið, hvernig menn hafa samið á vinnumarkaði, hvernig verðlag hefur þróast. Þetta er gert upp um áramót.

Þetta var gert upp fyrir árið 2015 við síðustu áramót og þar af leiðandi, vegna þess að miklar kauphækkanir höfðu orðið á því ári, var óvenjuhá prósentuhækkun lífeyrisgreiðslna um síðustu áramót.

Nú lítur út fyrir að þegar þetta ár verði gert upp verði einnig mjög umtalsverðar hækkanir lífeyris vegna þess að laun fólks munu þróast með þeim hætti, þau munu hækka það mikið, að uppfærslan, til að gera upp árið 2016, verði þeim mun hærri hvað varðar örorku- og ellilífeyrisgreiðslur.