145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við forsætisráðherra erum sammála um mikilvægi kjarasamninga sem gerðir voru um sáttina, um frið á vinnumarkaði, um aukna verðmætasköpun í landinu.

En átti ég virkilega að skilja svar hæstv. forsætisráðherra þannig að aldraðir og öryrkjar eigi að bíða í tólf mánuði eftir jafnstöðu hvað varðar samkomulag á vinnumarkaði, um hækkanir á launum aldraðra og öryrkja? Ég trúi því ekki að forsætisráðherra ætli að skilja þennan hóp einan eftir óbættan. Hefur ríkisstjórnin þar fundið breiðu bökin til að jafna ríkisreikning og fjárlagahalla eða koma í veg fyrir fjárlagahalla? Ég spyr.

Afraksturinn er nú ekkert mjög mikill í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það var tæplega 3.500 kr. hækkun eftir skatt sem fór með matarskattinum og svo 11.000 kr. núna. Þessar lágmarksbætur eru 186.000 kr. í dag og eiga þá að vera út þetta ár ef forsætisráðherra ætlar ekki að beita sér fyrir þessari lagfæringu.

Ég ítreka því spurningu mína: Vill hæstv. forsætisráðherra ekki beita sér fyrir þverpólitískri sátt, (Forseti hringir.) eins og gert var hjá aðilum vinnumarkaðarins milli þeirra sem semja um kaup og kjör aldraðra og öryrkja, og hækka þessar greiðslur frá og með áramótum eins og allir aðrir fá í þessu þjóðfélagi?