145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

starfsmannaleigur og félagsleg undirboð.

390. mál
[15:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er gífurlega mikilvægt mál sem þessi fyrirspurn fjallar um. Það stendur upp á okkur sem siðmenntað þjóðfélag að þessir hlutir séu allir í lagi og að það fólk sem kemur hingað til starfa tímabundið þegar við þurfum á vinnuafli að halda sitji við sama borð og aðrir og lendi ekki í þeirri aðstöðu að vera í einhvers konar þrælabúðum. Þetta er gífurlega mikilvægt mál.

Ég skil hæstv. ráðherrann þannig að hún fylgist með þessu og treysti því kerfi sem við höfum komið upp til að sjá um þetta allt saman. Ég vona svo sannarlega að kerfið sé traustsins vert en því miður höfum við séð gloppur í því. Ég hvet hana til dáða í að fylgjast grannt með þessu og leggja til úrbætur ef henni sýnist þörf á.