145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

starfsmannaleigur og félagsleg undirboð.

390. mál
[15:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Forustumenn í verkalýðshreyfingunni sem best þekkja til stöðunnar á vinnumarkaðnum hafa sagt að lagaramminn sé ágætur en það skorti upp á fjármuni og eftirlitið sjálft.

Hvað upplýsir hæstv. ráðherra okkur um hér? Ég skil það þannig að tveir starfsmenn hafi það sem hluta af sínum verkefnum að hafa eftirlit með þeim þúsundum erlendra starfsmanna sem hér eru og þeim þúsundum sem hingað eiga eftir að koma, í málum sem verður að telja að séu líklega mansal, í málum sem brjóta alla samkeppnisstöðu í landinu, í málum sem valda því að menn standa ekki skil á sköttum, í málum þar sem brotin eru mannréttindi á fólki og brotið gegn kjarasamningum sem gilda á Íslandi. Finnst okkur nóg að tveir starfsmenn hafi það sem hluta af sínum verkefnum? Hvað þýðir það? Að það sé maður í hálfu starfi að vinna að þessum málefnum um land allt, á öllum vinnustöðum í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð, jafnvel alla leið uppi á hálendi, sem þarf að hafa eftirlit með?

Ég hvet ráðherrann til að endurskoða vandlega hvort ekki þurfi að koma með tillögur um að auka fjármuni og fjölga fólki í takt við þá fjölgun starfsmanna sem hér mun augljóslega verða á þessu ári og hinum næstu ef svo fer fram um vöxt í efnahagsstarfseminni sem horfir og við hljótum að vona að gangi eftir.