145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

ákvæði um greiðslu sérstakrar framfærsluuppbótar í samræmi við búsetu hér á landi.

408. mál
[15:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef gert það sem viðkemur málefnum fólks sem fær hlutagreiðslur úr almannatryggingakerfinu að umræðuefni við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra áður á Alþingi.

Til upprifjunar á þessu máli þá virkar kerfið þannig að einstaklingur ávinnur sér fullan rétt til greiðslna úr almannatryggingakerfinu við 40 ára búsetu hér á landi meðan hann er á aldrinum 18–67 ára. Þeir sem hafa verið búsettir erlendis hluta af starfsævinni fá hins vegar hlutagreiðslur.

Kerfið byggir á því að fólk sem hefur starfað erlendis hafi áunnið sér réttindi í fyrra búsetulandi og fái greiðslur erlendis frá sem bætast þá við þau hlutaréttindi sem fólk hefur hérlendis.

Raunin er hins vegar sú að af margvíslegum ástæðum fær fólk ekki alltaf greiðslur frá fyrra búsetulandi og hefur því aðeins hinar íslensku hlutabætur sér til framfærslu.

Þegar ég átti orðastað um þetta málefni við hæstv. ráðherra í fyrra vísaði hún til þess að hún væri að bíða eftir tillögum frá nefnd um endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Sú nefnd hefur ekki enn skilað af sér tillögum. En það sem skiptir þá fyrst og fremst máli í þessu samhengi hér er að nefndin ætlar einfaldlega ekki að leggja fram sérstakar tillögur um hlutabætur. Það gengur því ekki að vísa til þeirrar nefndar varðandi lausn á þessu málefni.

Í lögum um félagslega aðstoð segir, með leyfi forseta:

„Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess.“

Þar segir einnig:

„Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd …“

Það er þessi nánari framkvæmd sem ég vil ræða sérstaklega við hæstv. ráðherra í dag. Það er nefnilega svo að einstaklingar sem fá greiddar hlutabætur í almannatryggingakerfinu fá einnig greiddar hlutabætur af uppbótum á lífeyri. Útkoman verður því eðli málsins samkvæmt sú að ráðstöfunartekjur eru einungis hluti af því sem hefur verið skilgreint sem lágmarksframfærsla.

Það er hins vegar ekkert í lögum um félagslega aðstoð sem kveður á um að til þess að fá þær greiðslur þurfi viðkomandi að hafa verið búsettur hér í 40 ár.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji koma til greina að fella niður eða endurskoða 3. mgr. 15. gr. reglugerðar um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, nr. 1052/2009, sem kveður á um að sérstök uppbót til framfærslu greiðist í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, með tilliti til þess að tilgangurinn með (Forseti hringir.) lögunum um félagslega aðstoð er jú sá að tryggja öllum ákveðna skilgreinda lágmarksframfærslu.